Reykjanesbær heimsækir Hafnarfjarðarbæ  

óflokkað

Nýverið sóttu bæjarstjóri og sviðsstjórar Reykjanesbæjar Hafnarfjörð heim í þeim tilgangi að ræða verkefni, framkvæmd, fyrirkomulag og áskoranir í daglegum rekstri sveitarfélagana. Þeir fengu kynningar á skipulagi og verkefnum kollega í Hafnarfirði.

Kollegar ræða málin í hinu sögufræga Bungalow

Mikilvægi þess að ræða verkefni, framkvæmd, fyrirkomulag og áskoranir í daglegum rekstri sveitarfélagana er oft vanmetið. Nýverið sóttu bæjarstjóri og sviðsstjórar Reykjanesbæjar Hafnarfjörð heim einmitt í þeim tilgangi og fengu kynningar á skipulagi og verkefnum kollega í Hafnarfirði. Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar bauð hópinn velkominn með vel völdum orðum um Hafnarfjörð og Hafnarfjarðarbæ, þjónustu sveitarfélagsins og verkefni sem hvetja og efla samfélagið.  

31.801 íbúar í mars 2024  

Í inngangi sínum fór Rósa meðal annars yfir helstu tölur innan sveitarfélagsins:  

  • 31.801 íbúar í byrjun mars 2024 
  • 18 leikskólar  
  • 11 grunnskólar 
  • 1 tónlistarskóli (+ 1 útibú)  
  • 3 sundlaugar  
  • 70 starfsstöðvar sveitarfélagsins um allan bæ  
  • Um 2500 starfsmenn – fjöldinn tvöfaldast yfir sumartímann  
  • Um 2000 stöðugildi  
  • Um 200 starfsheiti  

Framtíðarsýnin til ársins 2035  

Hjá Hafnarfjarðarbæ starfa sex sviðsstjórar á jafn mörgum sviðum. Sigurður Nordal sviðsstjóri stjórnsýslusviðs fór yfir heildarstefnu Hafnarfjarðar og innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í starfsemi sveitarfélagsins. Um er að ræða framtíðarsýn til ársins 2035 með níu meginmarkmiðum sem tengd eru heimsmarkmiðunum og snúa að vellíðan íbúa, hreyfingu og heilsu, blómlegu atvinnulífi, lifandi byggð, vistvænu samfélagi, öflugu mannlífi,  menntun fyrir alla, markvissri þátttöku og skilvirkri þjónustu. Öll þessi meginmarkmið kollvarpast og tengjast beint rekstri sveitarfélagsins og þeim verkefnum sem sviðsstjórar kynntu fyrir kollegum sínum í Reykjanesbæ.

Innviðauppbygging – í nútíð og framtíð  

Sigurður Haraldsson, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs, fór yfir þá innviðauppbyggingu sem í gangi er nú þegar og þá sem fyrirhuguð er í náinni framtíð; knatthús Hauka, reiðskemma Sörla, húsnæði Brettafélagsins, leikskóli í Hamranesi, grunn- og leikskóli í Hamranesi, gatnaframkvæmdir í Áslandi 4 og úthlutun lóða þar og uppbyggingu atvinnulóða á Hellnahrauni 4.  Auk þess ræddi Sigurður um þá innviðauppbyggingu sem fyrirhuguð er á Hraun-vestur, Óseyrarhverfi, Hvaleyrarbraut, Flensborgarhöfn, Straumsvík, vegna Tækniskólans og Bókasafns Hafnarfjarðar.  

Á vegferð til aukinnar velferðar  

Fanney Dóróthe Halldórsdóttir, sviðsstjóri mennta- og lýðheilsusviðs, kynnti megináherslu sviðsins á öflugan stuðning við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra í gegnum skóla- og frístundastarf. Þá aðallega með mikilli þverfaglegri vinnu skólanna, fjölskyldu- og barnamálasviðs og mennta- og lýðheilsusviðs. Tengist þessi aukna áhersla meðal annars innleiðingu sveitarfélagsins á nýlegum farsældarlögum og samþættingu þjónustu í þágu farsældar. Verkefni sem Hafnarfjarðarbær hefur unnið að um árabil undir heitinu Brúin.  

Þá sagði Fanney frá menntastefnu Hafnarfjarðar, Lestur er lífsins leikur, Barnahnappi, nýsköpunarsetri  og endurskipulagningu skóladagsins. Guðlaug Ósk Gísladóttir sviðsstjóri fjölskyldu- og barnamálasviðs sagði frá ÞÚ, nýju miðlægu teymi sem vinnur með fjölbreytt úrræði m.a. í heimaþjónustu, stuðningsþjónustu og stoðþjónustu við fatlað fólk. Guðlaug ræddi félagslegt húsnæði Hafnarfjarðarbæjar, málefni flóttafólks, barnavernd, farsæld barna og málefni fatlað fólks.  

Fann­ar Jónas­son, bæj­ar­stjóri Grinda­vík­ur, og Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Stafræn vegferð Hafnarfjarðarbæjar  

Áherslan í kynningum Helgu Benediktsdóttur, sviðsstjóra fjármálasviðs, og Árdís Ármannsdóttur, sviðsstjóra þjónustu- og þróunarsviðs, var á stafræna vegferð sveitarfélagsins.  

Þannig sagði Helga frá umbótaverkefnum sem eru til þess fallin að gera fjármálastjórn og áreiðanleika fjárhagsbókhalds Hafnarfjarðarbæjar enn markvissari og betra. Evolv er nýjasta og ferskasta dæmið. Evolv snýst um nýtingu stafrænna vélmenna sk. þjarka til að líkja eftir aðgerðum starfsfólks með það að markmiði að sjálfvirknivæða og einfalda ákveðna ferla. Dæmi um Evolv verkefni eru afstemmingar lánadrottna, fasteignayfirlit, hreyfingaryfirlit, sjóðsstýring og greiðsluáætlun, sjálfvirk samþykkt reikninga og frávikagreining aðalbókar.  

Árdís kynnti svo upphaf og þegar fenginn árangur af stafrænni vegferð sveitarfélagsins, aukið gegnsæi, einfaldar reiknivélar, ábendingagátt sem tekur á móti um150 ábendingum á mánuði, sorphirðudagatal og snjalla leitarvél. Auk þess kynnti Árdís stærri stafræn verkefni eins og nýtt hönnunarkerfi sem hefur auðveldað allt samstarf við fjölbreytta aðila, endurhönnun grunnskólavefja, leikskólavefi á  vef Hafnarfjarðarbæjar, nýtt smáforrit fyrir leikskólana, enskan vef, ljósmyndabanka og stafræna byltingu í byggingarmálum og mannauðsmálum sem skilað hafa umtalsverðum árangri.  

Í lok kynningar var menningarbærinn Hafnarfjörður undirstrikaður með upptalningu á árlegum viðburðum, styrkjum og stuðningi sem er til þess fallinn að ýta undir og efla hafnfirskt menningar- og listalíf. 

Sviðsstjórar og bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar þakka kollegum í Reykjanesbæ innilega fyrir komuna og áhugann. Til stendur að skipuleggja sambærilega heimsókn á Suðurnesin fljótlega.  

   

Ábendingagátt