Rík áhersla áfram lögð á læsi og málþroska barna

Fréttir

Lestrarstefna endurskoðuð og ný tæki og tól kynnt til sögunnar. Lestur er í hávegum hafður í Hafnarfirði og allar mögulega leiðir nýttar til að efla og ýta undir lestur og lestrarfærni barna og ungmenna í virku samstarfi skóla, stofnana og heimila. Sjö ár eru liðin frá því að hafnfirska verkefnið Lestur er lífsins leikur var kynnt til sögunnar. 

Lestrarstefna endurskoðuð og ný verkfæri kynnt til sögunnar

Lestur er í hávegum hafður í Hafnarfirði og allar mögulega leiðir nýttar til að efla og ýta undir lestur og lestrarfærni barna og ungmenna í virku samstarfi skóla, stofnana og heimila. Sjö ár eru liðin frá því að hafnfirska verkefnið Lestur er lífsins leikur var kynnt til sögunnar. Verkefnið hefur síðan þá þróast og stækkað þökk sé öflugu starfsfólki og virku skólasamfélagi sem gerir sér grein fyrir mikilvægi innleiðingar og þátttöku. Árangri var fagnað með kynningu á verkefni og nýjum verkfærum á uppskeruhátíð í Víðistaðaskóla. Þar var m.a. kynntur aukinn stuðningur við orðaforða yngstu barnanna í leikskólanum og ný orðanámskrá fyrir yngsta stig grunnskóla. 

IMG_5915Á uppskeruhátíð í Víðistaðaskóla komu saman skólastjórnendur og tengiliðir skóla við læsisverkefni bæjarins. 

IMG_6017

Það eru margir sem koma að mótun og innleiðingu verkefnis í skóla og stofnanir bæjarins. Hér má sjá hluta hópsins sem starfar á mennta- og lýðheilsusviði bæjarins. 

Ný stafaspil og nýr bæklingur um málörvun leikskólabarna

Á uppskeruhátíð í Víðistaðaskóla komu saman skólastjórnendur og tengiliðir skóla við læsisverkefnið auk starfsfólks frá viðeigandi fagsviðum sveitarfélagsins. Tilefnið var að fagna góðum árangri við innleiðingu á stefnu, viðmiðum og verklagi um málnotkun, lestrarkennslu og lestrarhæfni í alla skóla og kynna endurútgáfu á Lestur er lífsins leikur. Útgáfan er sú þriðja frá upphafi og byggir á fyrri áherslum frá árunum 2015 og 2018. Á hátíðinni voru fyrstu eintökin af nýrri útgáfu afhent og hópnum þakkað vel og innilega fyrir þá miklu vinnu sem átt hefur sér stað í öllum skólum við innleiðingu og framkvæmd. Samhliða fengu tengiliðir í öllum leikskólunum afhent fyrstu einstök af nýjum bæklingi fyrir foreldra leikskólabarna um málörvun. Tengiliðir í öllum grunnskólum fengu afhenta sérstaka stafaöskju sem inniheldur m.a. sett af bókstöfum og spilaskjóður fyrir alla nemendur í 1. bekk og fyrir eldri sérkennslunemendur sem glíma við lestrarvanda. Nálgunin er ný í Hafnarfirði og nær bæði til æfinga í skóla og heima við. Markmiðið með spilunum er að allir nemendur nái sem fyrst að festa hljóð og heiti bókstafanna í minni. Kennarar í 1.-2. bekk munu nú í haust sækja sérstakt námskeið um byrjendakennslu í lestri þar sem markviss notkun stafaspilanna og miðlun til foreldra verður m.a. tekin fyrir.

IMG_5962Tengiliðir í öllum leikskólunum fengu afhent fyrstu einstök af nýjum bæklingi um málörvun  fyrir foreldra leikskólabarna.

IMG_5958Tengiliðir í öllum grunnskólunum fengu afhenta sérstaka stafaöskju sem inniheldur m.a. sett af bókstöfum og spilaskjóður.

Hafnfirskt samstarfsverkefni sem ýtir undir lestur og lestrarfærni

LESTUR ER LÍFSINS LEIKUR er hafnfirskt verkefni sem miðar að því að sérhvert barn nái sem bestu valdi á lestri og geti lesið sér til gagns og gamans. Um er að ræða skýra og skilvirka læsisstefnu sem nær til nemenda, kennara og foreldra og hefur í gegnum árin m.a. skilað sér í aukinni samfellu milli skólastiga og lagt skýrar línur um mikilvægi læsis sem grunnstoð náms. Kveikjan að verkefninu í Hafnarfirði voru m.a. niðurstöður PISA um stöðnun í lesskilningi á Íslandi og því að börn gætu lesið sér til gagns. Lestrarfærni er forsenda virkrar þátttöku í samfélaginu og bág lestrarfærni getur haft neikvæð áhrif á námsframvindu og þar með tækifæri á lífsleiðinni síðar meir. Verkefnið LESTUR ER LÍFSINS LEIKUR nær til allra leikskóla, allra grunnskóla, frístundaheimila, Bókasafns Hafnarfjarðar, dagforeldra og foreldra yngstu barnanna.

Ábendingagátt