Rjúkandi veitingar úr nýju hringhúsi í Jólaþorpinu í ár

Fréttir Jólabærinn

Hringhús prýðir miðju Thorsplans í fyrsta sinn. Þar verður hægt að gæða sér á kakói, fá sér heitan kaffibolla og snæða bakkelsi frá Deig.

Veitingar í glænýju húsi á miðju Thorsplani

Hringhús mun prýða miðju Thorsplans í fyrsta sinn. Cuxhaven-jólatréð frá vinabæ Hafnarfjarðar fær því nýjan stað í Jólaþorpinu þetta árið. Þar verður hægt að gæða sér á kakói, fá sér heitan kaffibolla og snæða bakkelsi frá Deig.

Ekki þarf að leita lengra til að finna jólailm og rétta bitann en í Jólaþorpið í Hafnarfirði. Þar verður hægt að fá hin sívinsælu kofabjúgu, hangikjöt á beini og úrbeinað. Einnig tvíreykt hangilæri og grafið ærkjöt. Handverksbakarí, íslensk hönnun og framleiðsla fá sinn sess. Handgerð hágæða ilmkerti, handverkskonfekt í hæsta gæðaflokki og ristaðar jólamöndlur fyrir réttu stemninguna. Hinar ýmsu heilsubætandi vörur úr lífrænu hráefni, íslenskt skart, kerti og spil finnast þar einnig.

Handtálgaðir fuglar úr íslensku birki og íslenskur hágæða brjóstsykur. Hekl og vönduð handgerð tuskudýr. Já, það verður allskonar fyrir matgæðinga og listunnendur í Jólaþorpinu í Hafnarfirði.

Jólaskraut og kransar sem og vistvænar jólaskreytingar, barnavörur og úrval vandaðra vörumerkja. Þroskaleikföng og fatnaður. Villtur lax, ferskur, reyktur og grafinn. Þar verða einnig að finna bökunarvörur, helvítis sulturnar og sannar gjafir.

Það er svo margt fyrir augað, bragðlaukana og nefið í Jólaþorpinu í Hafnarfirði.

 

Jólablað Hafnarfjarðar 2024 – vefútgáfa:

hfj.is/jol

Ábendingagátt