Rótarýklúbburinn gefur fjóra bekki

Fréttir

Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar hefur fært Hafnarfjarðarbæ fjóra bekki við stíginn upp frá Kaldárselsvegi í Kaldársel. Bæjarstjóri tók við gjöfinni á dögunum. Verkefnið hefur fært mörgum gleði.

Minningar- og hvatningarbekkir til göngufólks

Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar hefur fært Hafnarfjarðarbæ fjóra bekki við þá sex sem þeir gáfu áður við göngu- og hjólreiðastíginn sem liggur upp frá Kaldárselsvegi í Kaldársel. Bæjarstjóri tók við gjöfinni á dögunum á fundi klúbbsins í Rótarýrlundinum við göngustíginn sem bekkirnir standa við.

Valdimar Víðisson bæjarstjóri þakkar rausnarlega gjöfina og gott samstarf við Rótarýklúbb Hafnarfjarðar. „Við í Hafnarfirði erum ákaflega þakklát fyrir gott og öflugt samstarf við Rótarýklúbb Hafnarfjarðar. Klúbburinn leggur sitt af mörkum til samfélagslegra verkefna, verkefna sem nýtast öllum. Þessir bekkir gera það svo sannarlega.“

Bekkir með sögu

Bekkirnir segja allir sína sögu og gera fólki á göngu í upplandi Hafnarfjarðrar kleift að staldra við, hvílast og njóta minninga fortíðarinnar. Stígurinn sem þeir standa við er hluti af Græna treflinum, sem er samheiti yfir skógræktar- og útivistarsvæði á útmörkum sveitarfélaganna sjö á höfuðborgarsvæðinu. Bekkirnir eru heiðraðri minningu margra og geymir einn þeirra geðorð til að lífga andann.

„Klúbburinn hefur það að markmiði að leggja til nærsamfélagsins og þessi hugmynd kom upp á klúbbfundi fyrir um fjórum árum síðan,“ segir Ingvar Geirsson sem lét að formennskunni í klúbbnum nú í júní í fyrra. Hann lýsir því hvernig klúbbfélagar hafi viljað láta bekkina prýða göngustíga í Hafnarfirði og hafi fengið Jónatan Garðarsson til að hjálpa sér með staðsetninguna.

„Hann benti okkur á þennan stíg sem liggur upp með Kaldárselsvegi,“ segir Ingvar og að ákveðið hafi verið að setja skjöld Rótarýklúbbsins á bekkina og minningarsköld þar fyrir neðan. Níels Árnasyni úr Hafnarfjarðarbíói er til að mynda minnst á fyrsta bekknum. „Hann gaf klúbbnum peninga og okkur þótti rakið að nota þá í þessa gjöf.“

Tíu bekkir samtals

Rótarýklúbburinn gaf Hafnarfjarðarbæ fyrst 6 bekki við stíginn fyrir tveimur árum. Nú hafa þessir fjórir bæst við. Málmsteypan Hella ehf. framleiðir bekkina sem eru steyptir úr endurunnu áli en seta og bak framleidd úr endurunnu plasti.

„Samtals eru bekkirnir því 10 við stíginn sjálfan og einn við lundinn okkar sem er í sama dúr. Allir bekkirnir merktir að þetta sé gjöf til þeirra sem fara um stíginn.“ Hann lýsir því hvernig ákveðið hafi veri að flytja geðorð á Rótarýfundunum í forsetatíð sinni.

„Við ákváðum að vera með jákvæða litla lýsingu, svona eins og; Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt. Þriðji skjöldurinn er einmitt svona geðorð, eins og á þeim öllum. Hvatningarorð til þeirra sem setjast á bekkinn.“

Verk sem snerti afkomendur

Ingvar lýsir því hvernig fjöldi afkomenda þeirra sem minnst er á bekkjunum hafi einnig viljað taka þátt í verkefninu með peningagreiðslu fyrir minningarskjöldinn.

„Þetta er svo skemmtilegt og gefandi verkefni að það spurðist út. Margir aðstandendur vildu taka þátt með þessum hætti og eiga í þannig í verkefninu með okkur. En það hefur nú ekki verið nein skylda og hver og einn ákveðið fyrir sig.“

Hafnarfjarðarbær og Rótarýklúbburinn gerðu með sér samning um bekkina. „Hafnarfjarðarbær hefur skipt um undirlag undir þeim. Svo setjum við steyptar undirstöður undir bekkina og boltum niður. Bærinn sér svo um fráganginn, segir Ingvar. Afar góð samvinna er því um verkið.

„Ég heyrði af konu sem labbaði stíginn og sagði: Nú get ég labbað lengra og lengra því ég hef bekki til að hvíla mig. Þá er tilgangi verksins náð,“ segir Ingvar Geirsson fyrir hönd Rótarýklúbbsins.

 

Hvar eru bekkirnir? Sá fyrsti er rétt ofan við hesthúsahverfið við Hlíðarþúfur. Næsti til móts við Sörlastaði. Sáþriðji er við afleggjarann að Hvaleyrarvatni. Svo eru bekkirnir koll af kolli að Kaldárseli.

 

Hverra er minnst á bekkjunum?
  1. bekkur
    • Níels Árnason f. 1923, d. 2016
    • Bjarni Þórðarson f. 1936, d. 2012

Hver áfangi er leiðin að sigrinum

 

  1. bekkur
    • Valgarð Thoroddsen f. 1906, d. 1978
    • Stefán Jónsson f. 1909, d. 2001

Upplifðu fegurð náttúrunnar

 

  1. bekkur
    • Guðjón Steingrímsson f. 1924, d. 1988
    • Steingrímur Guðjónsson f. 1948, d. 2023

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt

 

  1. bekkur
    • Gísli Jónsson f. 1929, d. 1999
    • Skúli Þórsson f. 1943 d. 2008

Aðgát skal höfð við nærveru sálar

  1. bekkur
    • Albert Kristinsson f. 1926, d. 2016
    • Sigurbjörn Kristinsson f. 1924, d. 2011
    • Sigurður Kristinsson f. 1922, d. 2005

Megi gæfan þig geyma

 

  1. bekkur
  • Trausti Ó. Lárusson f. 1929, d. 2021
  • Þórður Helgason f. 1930, d. 2018

Ástin er drifkraftur lífsins

  1. bekkur
    • Stefán Júíusson f. 1915, d. 2002
    • Jón Bergsson f. 1931, d. 2015

Megi dagur hver fegurð þér færa

 

  1. bekkur
    • Guðmundur Friðrik Sigurðsson f. 1946, d. 2022
    • Sigurður Þorleifsson f. 1948, d. 2018

Gleðstu yfir góðum degi

 

  1. bekkur
    • Björn Árnason f. 1929, d. 2007
    • Steinar Steinsson f. 1926 d. 2015

Vingjarnlegt orð sem fellur í dag getur borið ávöxt á morgun

 

  1. bekkur
    • Helgi G. Þórðarson f. 1929, d. 2003
    • Steingrímur Atlason f. 1919, d. 2007

Staldraðu við, njóttu stundarinnar

 

  1. bekkur
  • Jón Guðmundsson f. 1929 d. 2002
  • Jón Kr. Gunnarsson f. 1929, d. 2000
  • Jón Vignir Karlsson f. 1946, d. 2017

Er það satt?

Er það drengilegt?

Eykur það velvild og vinarhug?

Er það öllum til góðs? 

 

Ábendingagátt