SA segja ákvörðun bæjarins til fyrirmyndar

Fréttir

Samtök iðnaðarins segja framgöngu Hafnarfjarðarbæjar til fyrirmyndar þegar kemur að álagningu fasteignaskatts atvinnuhúsnæðis. Bærinn lækkaði álagningu fasteignagjalda milli fjárhagsára.

Framganga til fyrirmyndar!

Samtök iðnaðarins segja framgöngu Hafnarfjarðarbæjar til fyrirmyndar þegar kemur að álagningu fasteignaskatts atvinnuhúsnæðis. Bærinn hafi mætt hækkun fasteignamats með lækkun álagsprósentunnar. Það mættu önnur sveitarfélög taka sér til fyrirmyndar.

Álagningarprósenta fasteignarskatts á atvinnuhúsnæði í Hafnarfirði var lækkuð úr 1,400% í 1,387% á þessu fjárhagsári til þess að koma til móts við hækkun fasteignamats. Álagning fasteignagjalda, þ.e. fasteignaskatts og tengdra gjalda (án lóðarleigu), á atvinnuhúsnæði lækkaði úr 1,568% í 1,555% á milli ára. Samtökin segja nær helm­ing­ sveit­ar­fé­laga vera með skatt­lagn­ingu at­vinnu­hús­næðis í lög­bundnu há­marki eða í 1,65%.

Samtök iðnaðarins segja í greiningu, sem kom út þann 8. ágúst, að iðnaðarhúsnæði sé ríflega 39% af atvinnuhúsnæði í landinu sé miðað við fasteignamat. „Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði leggjast því þungt á iðnaðinn í landinu. 64% stjórnenda iðnfyrirtækja segja að það skipti miklu fyrir rekstur þeirra fyrirtækja að fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði séu lækkaðir. Ekki nema 16% segja að það skipti litlu eða engu,“ segir í þessari nýju greiningu.

Álagningarhlutfallið lækkað

Í greinargerð fyrir fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar má sjá þróunina á álagningarprósentu á atvinnuhúsnæði.

Samtök iðnaðarins benda einmitt á að sveitarstjórnir nokkurra stærstu sveitarfélaganna hér á landi hafi á síðustu árum mætt hækkun fasteignamatsins með lækkun álagningarprósentunnar. „Má þar nefna Kópavog og Hafnarfjörð en þar er skattprósentan lægri en í öðrum stærri sveitarfélögum. Samtök iðnaðarins telja að framganga þeirra sé til fyrirmyndar fyrir sveitarstjórnir annarra sveitarfélaga,“ segir í greiningunni.

Ábendingagátt