Saman í takt – samstarf skólastiga í Skarðshlíðarskóla

Fréttir

Fyrsti sameiginlegur starfsdagur allra skólastiga og starfseininga í Skarðshlíðarskóla var haldinn í upphafi síðustu viku. Þar komu saman á hátíðarsal skólans starfsfólk leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla. 

Saman í takt er samstarfsverkefni leik-, grunn- og tónlistarskóla Skarðshlíðar

Fyrsti sameiginlegur starfsdagur allra skólastiga og starfseininga í Skarðshlíðarskóla var haldinn í upphafi síðustu viku. Þar komu saman á hátíðarsal skólans starfsfólk leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla. Skólastjórnendur stigu á stokk með kynningu á starfsemi síns skóla og væntingar til vetrarins auk þess sem Dr. Helga Rut Guðmundsdóttir prófessor í tónmennt á Menntavísindasviði Háskóla Íslands flutti fyrirlestur um áhrif tónlistar á málþroska og heilastarfsemi. Í lokin var boðið upp á vettvangsferð um húsið. Markmið Saman í takt, samstarfsverkefnis leik-, grunn- og tónlistarskóla Skarðshlíðar, er að leiða saman öll skólastig sem starfa saman undir einu og sama þaki. Helena Guðjónsdóttir, nýr verkefnastjóri í Skarðshlíðarskóla, mun halda utan um verkefnið fyrir hönd allra skólastiganna. Andinn í skólanum er góður og mikill vilji til að skapa öflugt og fjölbreytt skólasamfélag.

Einstakt umhverfi og einstakur skóli – flæði milli starfsstöðva

Í haust eru fimm ár liðin síðan grunnskólinn í Skarðshlíð fór af stað. Nú í vetur bættist 10. bekkur við og þar með er skólinn fullnýttur fyrir öll skólastig. Skarðshlíðarleikskóli hefur verið í rekstri í tvö ár og glæsilegt útibú Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og íþróttahús bættust við fyrir ári síðan. Heimsfaraldur hefur sett sitt mark á samstarfið milli skólastiganna og flæði milli starfseininga og því óhætt að segja að tilhlökkun til komandi vetrar sé mikil. Fyrir faraldur höfðu leikskóli og grunnskóli náð að stilla nokkuð vel saman strengi sína með alls kyns samveru leikskólanemenda og grunnskólanemenda á yngsta stigi í m.a. sögustundum, jólaleikriti og í hreyfingu. Í unglingadeild hefur verið boðið upp á valáfanga þar sem nemendur fá að fylgjast með og spreyta sig á verkefnum í daglegu starfi leikskólakennara bæði í inniveru og útiveru og þá með eldri börnunum í leikskólanum. Þátttaka ungmennanna snýr fyrst og fremst að samskiptum við börnin í leik og starfi sem kallar fram gleði, ábyrgð og stolt. Verkefnið er til þess fallið að auðvelda börnunum að aðlagast grunnskólastarfi eftir að hafa kynnst svæðinu, byggingunni og jafnvel starfsfólki grunnskólans.

Starfsfólk hefur bein áhrif á skólastarfið

Skólastjórnendur leggja upp með virka og sameiginlega sýn á það hvernig samþætta megi mannauðinn til að þróa og byggja upp öflugt flæðandi skólastarf sem tekur breytingum í takti við tímann. Áhugasamt og öflugt starfsfólk gefur haft bein áhrif á skólastarfið og hafa starfseiningarnar laðað að sér starfsmannahóp sem aðhyllist þessari flæðandi hugmyndafræði og sköpun á einstöku skólasamfélagi. Útibú Tónlistarskóla Hafnarfjarðar er búið fallegum, vönduðum og endingargóðum forskólahljóðfærum og ætlar skólinn sér að fylla sín rými af nemendum á öllum aldri. Tónlistarskólinn réði í fyrsta sinn til sín músikþerapista veturinn 2020 sem er með aðsetur í Skarðshlíðarskóla og sinnir bæði kennslu og ráðgjöf fyrir alla kennara skólans á öllum skólastigum. 

Það er spennandi vetur framundan í einstöku skólastarfi í Skarðshlíðinni!

Eldri frétt: Stilla saman strengi í Skarðshlíð 

Ábendingagátt