Samfélagslöggur hitta hafnfirska unglinga

Fréttir

Samfélagslöggur Hafnarfjarðar heimsækja nú 7.  bekki í grunnskólum Hafnarfjarðar og veita nemendunum fræðslu um ofbeldi, vopnaburð, einelti og hótanir. Samfélagslöggæsla er forvarnaverkefni lögreglunnar.

Samfélagslöggæsla fyrir auknar forvarnir

Samfélagslöggur hitta nú 7. bekki grunnskóla Hafnarfjarðar. Þær ræða sérstaklega ofbeldi á samfélagsmiðlum við ungmennin. Fyrir stuttu hittu þær 7. bekkina tvo í Lækjarskóla. „Það er ekkert djók að hóta og lemja,“ segir Dagný Karlsdóttir en þær Ýr Steinþórsdóttir starfa sem samfélagslöggur í Hafnarfirði með hefðbundnum lögreglustörfum. Þær heimsækja félagsmiðstöðvar, öldrunarheimili og leikskóla til að tengjast samfélaginu.

Samfélagslöggæsla er forvarnaverkefni lögreglunnar. Nú eru þær í sérstöku átaki til að fræða ungmennin. „Það er þörf á þessu og skólar að biðja um svona fræðslu fyrir 7. bekk,“ segir Dagný. Verkefnið er leið til að bæta þjónustuna og efla tengslin við almenning og ekki síst unga fólkið. Samfélagslöggan vinnur með samfélaginu sínu og eflir samstarf milli kerfa sem er mikilvægt í innleiðingu farsældarlaganna.

 

Unglingarnir áhugasamir

Unga fólkið í Lækjarskóla sýndi erindi lögreglunnar mikinn áhuga. Það tók virkan þátt og spurði spurninga. Spennan var mikil þegar það fékk að prófa vestin og handjárnin og sjá búkmyndavélarnar. Samfélagslöggurnar fræddu börnin um sakhæfisaldur, vopnaburð og bentu á að hótanir á vefnum, netspjall og viðkvæmar persónulegar myndir væru alltaf til. Þær svöruðu einnig spurningum unglinganna, meðal annarra: Hver ferillinn væri ef einhver væri skotinn? Hvort 12-14 ára börn væru handtekin? Þau spurðu löggurnar einnig um starf þeirra og hvað þyrfti til að verða lögga.

Löggan vill efla tengsl við íbúa

Fjórar lögreglustöðvar eru á Höfuðborgarsvæðinu og samfélagslöggur á þeim öllum. Þær fræða og mynda tengsl við íbúa og hafa gert allt frá árinu 2019. „Við teljum að þessi tenging við samfélagið auki líkur á að fólk hafi samband við okkur, fólk hugsi til lögregluna og líka um lögregluna áður en það gerir einhvern skandal,“ segir Dagný.

„Við höldum ekki bara fræðsluerindi heldur fundum með bænum og barnavernd,“ segir hún. Öll fræðsla sé góð. „Það er mikilvægt að brúa bilið milli íbúa og lögreglunnar.“ Dagný hefur verið í lögreglunni í um fjögur ár og Ýr í sjö. Þær hófu störf sem samfélagslögreglur í hlutastarfi nú í janúar. „Þetta er nýtt fyrir okkur og ánægjulegt að hitta fólk í þessu hlutverki.“ Aðra daga eru þær svo í hefðbundnum lögreglustörfum.

 

 

Ábendingagátt