Samningur um heilsueflingu eldri borgara í Hafnarfirði

Fréttir

Bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Janus Guðlaugsson undirrituðu fyrr í dag samstarfssamning sveitarfélagsins við Heilsueflingu Janusar slf, til eins og hálfs árs í tengslum við heilsueflingu allt að 160 íbúa Hafnarfjarðarbæjar á aldrinum 65 og eldri. Um er að ræða þolþjálfun sem fer fram einu sinni í viku í frjálsíþróttahöllinni við Kaplakrika og styrktarþjálfun sem fram fer tvisvar í viku í heilsuræktarsal Reebok Fitness við Ásvallalaug.

Bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Janus Guðlaugsson undirrituðu fyrr í dag samstarfssamning sveitarfélagsins við Janus Heilsueflingu slf, til eins og hálfs árs í tengslum við heilsueflingu allt að 160 íbúa Hafnarfjarðarbæjar á aldrinum 65 og eldri. Um er að ræða þolþjálfun sem fer fram einu sinni í viku í frjálsíþróttahöllinni við Kaplakrika og styrktarþjálfun sem fram fer tvisvar í viku í heilsuræktarsal Reebok Fitness við Ásvallalaug.

 „Ein af áskorunum í samfélögum nútímans er að halda „unga fólkinu“ sem er komið á sjötugs aldurinn á hreyfingu og koma á móts við þeirra þarfir hvað það varðar. Það hefur sýnt sig bæði hér heima og erlendis að verkefni eins og þetta eru mjög gagnleg tæki í baráttunni við allskyns lífstílssjúkdóma eins og ofþyngd og sykursýki B sem dæmi. Þá er einnig verið að stefna að þeim markmiðum að fólk geti dvalið sem lengst í eigin búsetu, sinnt athöfnum daglegs lífs eins lengi og kostur er og viðhaldið eða aukið lífsgæði á efri árum“ segir Rannveig Einarsdóttir sviðsstjóri fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar þar sem verkefninu er stýrt hjá bænum. „Við höfum því miklar væntingar til þess samstarfs og væntum mikillar þátttöku.“.

 Hver og einn þátttakandi fær einstaklings miðaða æfingadagskrá sem gerð verður í kjölfar mælinga á þreki, styrk og líkamlegs ástands hvers og eins. Æfingar fara fram í fámennum hópum undir leiðsögn fagfólks. Auk þol og styrktaræfinga verður þátttakendum einnig boðið uppá fyrirlestra er snúa að hollu mataræði og lífsstíl.

 Samningurinn er liður í áherslu sveitarfélagsins í þá veru að hvetja og efla íbúa sína til hreyfingar og hollra lífshátta.

Verkefnið sem hér um ræðir er samstarfsverkefni Hafnarfjarðarbæjar, Janusar heilsueflingar slf, Félags eldri borgara í Hafnarfirði og Íþróttabandalags Hafnarfjarðar.

Til þess að fræðast enn frekar um málið verður haldin kynningarfundur í Hraunseli við Flatahraun fimmtudaginn 25. janúar n.k. kl. 14.00. Á fundinum gefst fólki einnig tækifæri til að skrá sig til þátttöku.

Á myndinni eru þau Rannveig Einarsdóttir sviðstjóri fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar, Janus Guðlaugsson frá Heilsueflingu Janusar Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri og Guðrún Frímannsdóttir, deildarstjóri Stoðþjónustu Hafnarfjarðar

 

Ábendingagátt