Samningur við Björgunarsveit Hafnarfjarðar undirritaður

Fréttir

Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Gísli Johnsen, formaður Björgunarsveitar Hafnarfjarðar undirrituðu í dag rekstrarsamning fyrir árið 2018. 

Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Gísli Johnsen, formaður Björgunarsveitar Hafnarfjarðar undirrituðu í gær rekstrarsamning fyrir árið 2018. Þar skuldbindur bærinn sig til að styðja við rekstur sveitarinnar á árinu sem nemur 19 milljónum króna og skv. fjárhagsáætlun 2018-2022. Rekstrarsamningurinn tekur að mestu á rekstri björgunar- og slysavarnarmiðstöðvar félagsins en forsendur fyrir framlagi Hafnarfjarðarbæjar til rekstrar eru byggðar á rauntölum úr rekstri liðinna ára sem er samskonar módel og haft er til hliðsjónar við stuðning bæjarins við íþróttafélögin.

„Vel rekin og vel þjálfuð björgunarsveit er algjör undirstaða í öllum viðbragðsáætlunum hvers sveitarfélags. Við erum stolt af okkar sveit og þakklát að vita af þeim á bakvakt. Stuðningur sveitarfélagsins skiptir þá máli sem og stuðningur allra í formi þess að kaupa af þeim jólatré, flugelda eða aðra þá fjáröflun sem eflir þeirra starf,“ sagði Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri við undirritun samningsins en hann var undirritaður í jólatréssölu sveitarinnar í Hvalshúsinu á horni Flatahrauns og Reykjavíkurvegar.

Björgunarsveit Hafnarfjarðar skuldbindur sig til að verja ákveðnum hluta framlagsins til unglinga- og æskulýðsmála og þar með talið til forvarnarmála. Sveitin skal í ársskýrslu sinni til bæjarstjórnar gera sérstaklega grein fyrir því hvernig þeim fjármunum er varið. Að öðru leyti ver björgunarsveitin fjárframlagi Hafnarfjarðarbæjar til nýliðaþjálfunar, þjálfunar björgunarmanna, viðhaldi og rekstri tækjabúnaðar, viðhaldi og þjálfun vegna almannavarnabúnaðar. Þá er í samningnum gert ráð fyrir sérstöku fjárframlagi til þjálfunar sporhunda sem hafa skapað sveitinni mikla sérstöðu en Björgunarsveit Hafnarfjarðar er eina björgunarsveitin á landinu sem á og notar sporhunda til leitar að týndu fólki.

Jafnframt skuldbindur björgunarsveitin sig til að koma að skipulagningu og framkvæmd Sjómannadagsins í Hafnarfirði en það er stór dagur í menningarlífi bæjarins og vekur aðkoma sveitarinnar að deginum alltaf jafn mikla ánægju og athygli.

Ábendingagátt