Samningur við Listdansskóla Hafnarfjarðar

Fréttir

Undirritaður hefur verið samningur til eins árs við Listdansskóla Hafnarfjarðar um skapandi starf og þjónustu félagsins sem sannarlega ýtir undir þann fjölbreytileika sem ríkir í tómstundum og afþreyingu innan sveitarfélagsins. 

Skapandi starf fyrir börn og ungmenni þar sem listir, hreyfing, gleði og ánægja er í fyrirrúmi

Undirritaður hefur verið samningur til eins árs við Listdansskóla Hafnarfjarðar um skapandi starf og þjónustu félagsins sem sannarlega ýtir undir þann fjölbreytileika sem ríkir í tómstundum og afþreyingu innan sveitarfélagsins. Listdansskólinn býður upp á skipulagðar dansæfingar og tekur samstarf Hafnarfjarðarbæjar við Listdansskólann mið af gildi lista, hreyfingar og íþróttaiðkunar fyrir uppeldis- og forvarnarstarf. Haustið 2021 mun samtal um endurnýjun á samningi eiga sér stað með tilliti til fjölda iðkenda og velgengni barna- og unglingastarfs á árinu. Fast framlag bæjarins samkvæmt samning er kr. 400.000.- Frístundabíllinn verður með stoppistöð við skólann.

IMG_6930

Skólaval fyrir nemendur á unglingastigi

Hafnarfjarðarbær og Listdansskólinn hafa, samningi samkvæmt, heimild til að semja um skólaval fyrir nemendur á unglingastigi. Með því gefst nemendum kostur á að velja starf og þátttöku í Listdansskólanum sem valgrein í skólastarfinu. Samningurinn tekur jafnframt til umboðs Vinnuskóla Hafnarfjarðar um samninga vegna sumarnámskeiða 2021 og að starfsmenn vinnuskólans starfi sem aðstoðarmenn á sumarnámskeiðum Listdansskólans undir verkstjórn skólans.

Um Listdansskóla Hafnarfjarðar

Starfsemi Listdansskóla Hafnarfjarðar hófst í janúar 1994 og þá stunduðu 12 nemendur nám við skólann. Árið 2015 voru nemendur orðnir 420 talsins og stunduðu þeir nám í barnadönsum, barnaballett, barnadjassdansi, klassískum ballett, djassdansi, hipp hoppi, showdansi, silki, nútímadansi og dönsum fyrir 20 ára og eldri. Skólinn er einkarekinn og fer kennslan fram í Helluhrauni 16-18. Eigandi og skólastjóri er Eva Rós Guðmundsdóttir. Listdansskóli Hafnarfjarðar er með árlega vorsýningu í Borgarleikhúsinu þann 1.maí. Auk þess sýna nemendur á jólasýningu skólans sem er haldin annað hvort í Gaflaraleikhúsinu eða sölum skólans. Árlega stendur skólinn einnig fyrir Dansbikarnum, sem er innanhússkeppni skólans þar sem nemendur fá að spreyta sig í að semja eigin dansa. Bæði kennarar og meðlimir nemendafélags skólans hafa haldið utan um keppnina sem ætíð vekur mikla lukku bæði hjá nemendum og foreldrum. Nemendur 13 ára og eldri hafa kost á því að fara í dansferð með skólanum til London annað hvert ár. Þar verja þau 4-6 dögum með kennurum skólans og fara í danstíma, dansworkshop og á söngleik. Skólinn hefur einnig tekið þátt í danskeppnum erlendis, en árið 2015 sigraði hópur af nemendum frá Listdansskóla Hafnarfjarðar á dansmóti á Spáni.

Upplýsingar um Listdansskólann eru teknar af vef skólans –sjá hér

Ábendingagátt