Þjónustusamningur við Tennisfélag Hafnarfjarðar

Fréttir

Hafnarfjarðarbær og Tennisfélag Hafnarfjarðar skrifuðu undir þjónustusamning til eins árs í veðurblíðu á tennisvellinum á Víðistaðatúni í maí.  Strax í haust mun samtal eiga sér stað um endurnýjun á samningi með tilliti til fjölda iðkenda hjá félaginu og velgengni starfsins á árinu.

Hafnarfjarðarbær og Tennisfélag Hafnarfjarðar skrifuðu undir þjónustusamning til eins árs í veðurblíðu á tennisvellinum á Víðistaðatúni í maí. Samningurinn tekur til allrar þeirra þjónustu sem Tennisfélag Hafnarfjarðar veitir íbúum í Hafnarfirði og með hvaða hætti Hafnarfjarðarbær greiðir félaginu fyrir þjónustuna. Fast framlag bæjarins samkvæmt samningi er 400.000 kr. Strax í haust mun samtal eiga sér stað um endurnýjun á samningi með tilliti til fjölda iðkenda hjá félaginu og velgengni starfsins á árinu.

IMG_8005Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og Júlíana Jónsdóttir formaður Tennisfélags Hafnarfjarðar hér fyrir miðju ásamt þeim Birni Bögeskov Hilmarssyni forstöðumanni þjónustumiðstöðvar, Geir Bjarnasyni íþrótta- og tómstundafulltrúa og Ingibjörgu Sigurðardóttur garðyrkjustjóra Hafnarfjarðarbæjar við undirritun á samningi. 

Í þágu fjölbreytileika og gildis fyrir uppeldis- og forvarnarstarf

Heilsubærinn Hafnarfjörður fagnar fjölbreytileikanum og reynir markvisst í allri sinni vinnu og verkefnum að styðja við og ýta undir fjölbreytt og skapandi íþrótta- og tómstundastarf fyrir börn og ungmenni. Það er því sérstaklega ánægjulegt að skrifa undir þjónustusamning við nýstofnað Tennisfélag Hafnarfjarðar. Tennisfélag Hafnarfjarðar býður upp á skipulagða íþróttaþjálfun fyrir fólk á öllum aldri. Þjálfunin í Hafnarfirði nær til yngstu hópanna eða 6 – 9 ára og fara æfingar fram í þremur íþróttahúsum tengt frístund. Áhugi er fyrir því að fjölga kennslustöðum fyrir næsta skólaár tengt frístundarstarfi skólanna.  Á góðum regnlausum dögum er hægt að taka létta leiki á tennisvellinum á Víðistaðatúni en völlurinn hentar í dag ekki vel til æfinga. Ný net voru sett upp á vellinum síðasta sumar auk þess sem völlurinn var málaður. Draumurinn um gervigras á völlinn verður svo vonandi að veruleika áður en langt um líður sem opnar m.a. á möguleika um skipulagðar æfingar á vellinum. 

Í samstarfi við Tennisfélag Kópavogs og Tennisfélag Garðabæjar býður Tennisfélag Hafnarfjarðar upp á fasta æfingatíma í Tennishöllinni í Kópavogi. Tennishöllin er miðstöð tennis á Íslandi og í höllinni æfa félög frá mörgum sveitarfélögum á fimm innitennisvöllum og þremur útitennisvöllum. Hafnarfjarðarbær fagnar nýjum samningi og býður Tennisfélag Hafnarfjarðar velkomið í hóp þeirra félaga í Hafnarfirði sem eru með þjónustusamning við sitt sveitarfélag. Samstarf Hafnarfjarðarbæjar við íþróttafélögin í bænum tekur mið af fjölbreytileika hreyfingar og gildi íþróttaiðkunar fyrir uppeldis- og forvarnarstarf.

Það eru allir velkomnir í tennis!

Tennisfélag Hafnarfjarðar er á Facebook

Ábendingagátt