Málefni flóttafólks

Fréttir

Fulltrúar stjórnvalda og sérfræðinga í málefnum flóttafólks frá Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum koma saman í Hafnarfirði næsta tvo dagana til að ræða aðlögun flóttafólks. Fundurinn er haldinn í gamla Menntasetrinu við Lækinn í Hafnarfirði.

Evrópskur samráðsfundur um móttöku og aðlögun flóttafólks

Fulltrúar stjórnvalda og sérfræðinga í málefnum flóttafólks frá Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum koma saman í Hafnarfirði næsta tvo dagana til að ræða aðlögun flóttafólks. Fundurinn er haldinn í gamla Menntasetrinu við lækinn í Hafnarfirði.

Útfærsla á samstarfi á milli flóttafólks og móttökulands

Áhersla í samtali hópsins verður á réttindi flóttafólks, á tækifæri þess til að aðlagast í móttökulandi og gefa af sér til samfélagsins. Yfirskrift fundar er Integration of Refugees in Europe eða aðlögun flóttafólks í Evrópu. Fjallað verður sérstaklega um hvernig hægt er að veita flóttafólki  viðeigandi stuðning til virkrar þátttöku í samfélaginu á eigin forsendum.  Fyrirséð er að fjöldi flóttafólks á eftir að aukast gríðarlega á næstu misserum sem ýtir á mikilvægi þess að vinna saman og móta verkferla í þjónustunni við flóttafólk. Markmiðið er að finna áhrifaríka leið sem hefur hvorutveggja hagsmuni, réttindi og skyldur flóttafólksins og samfélagsins að leiðarljósi.

Miklar vonir bundnar við aukið samstarf allra viðeigandi aðila

Ísland er að taka á móti hópum flóttamanna og mikilvægt að standa vel að málum. Þar skiptir mestu að tryggja að flóttafólk nái að aðlagast samfélaginu og að hæfileikar, hugmyndir og áherslur þess fái að njóta sín og stuðlað sé að fjölmenningarlegu samfélagi. Hópur af sýrlensku flóttafólki kom til landsins í byrjun apríl og tók Hafnarfjarðarbær þá á móti þremur fjölskyldum eða 11 einstaklingum. Síðustu vikur hafa farið í það að hjálpa fjölskyldunum að komast hratt og örugglega inn hlutina og veita viðeigandi ráðgjöf og þjónustu. Liður í þjónustunni er íslenskukennsla og hefur hópurinn síðustu vikur stundað nám í íslensku og eru einhverjir þegar farnir að geta sagt nokkur orð á íslensku. Sýrlenska flóttafólkið mun að öllum líkindum hitta fulltrúa á fundi þeirra næstu tvo dagana enda fer kennslan fram í sama húsi.

Fundur um málefni flóttafólks fer fram í gamla Menntasetrinu við Lækinn dagana 8. – 9. júní. Fundurinn er haldinn fyrir tilstuðlan norrænu skrifstofu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins (Council of Europe) í samstarfi við Hafnarfjarðarbæjar og velferðarráðuneyti. 

Ábendingagátt