Samræming sorphirðukerfis væri stórt framfaraskref

Fréttir

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa lengi kallað eftir samræmdu sorphirðukerfi við heimili og sérsöfnun á lífrænum eldhúsúrgangi. Undanfarna mánuði hafa Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) unnið að undirbúningi á slíku og var skýrsla starfshóps um samræningu og sérsöfnun nýlega kynnt. Samræming sorphirðukerfis væri stórt framfaraskref sem mun skipta miklu máli í baráttunni gegn loftslagsvánni og fyrir innleiðingu hringrásarhagkerfisins á Íslandi. Í skýrslunni er gert ráð fyrir að innleiðing hefjist í völdum hverfum í vor og yrði lokið vorið 2023.

Tillögur að samræmdu sorphirðukerfi og sérsöfnun á lífrænum úrgangi kynntar

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa lengi kallað eftir samræmdu sorphirðukerfi við heimili og sérsöfnun á lífrænum eldhúsúrgangi. Undanfarna mánuði hafa Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) unnið að undirbúningi á slíku og var skýrsla starfshóps um samræningu og sérsöfnun nýlega kynnt. Samræming sorphirðukerfis væri stórt framfaraskref sem mun skipta miklu máli í baráttunni gegn loftslagsvánni og fyrir innleiðingu hringrásarhagkerfisins á Íslandi. Í skýrslunni er gert ráð fyrir að innleiðing hefjist í völdum hverfum í vor og yrði lokið vorið 2023.

Allar nánari upplýsingar er að finna í skýrslu starfshóps 

SamraemtSorphirdukerfi

Fjórir flokkar af sorpi og möguleiki á tvískiptum tunnum

Í­ nýja sorphirðukerfinu er lagt til að fjórum úrgangsflokkum verði safnað við öll heimili á höfuðborgarsvæðinu. Úrgangsflokkarnir eru:

  • Lífrænn eldhúsúrgangur
  • Blandað heimilissorp
  • Pappír og pappi
  • Plastumbúðir

Kerfið er í samræmi við þær breytingar sem taka gildi á lögum um söfnun á úrgangi við heimili um áramótin og er að Norrænni fyrirmynd. Við tillögugerð að hönnun kerfisins var haft að leiðarljósi að breytingarnar verði eins þægilegar og einfaldar fyrir íbúa og mögulegt er og verða tvískiptar tunnur í boði við heimili þar sem pláss er af skornum skammti. Þegar um tvískiptar tunnur er að ræða verður lífrænum eldhúsúrgangi og blönduðum úrgangi safnað í sitthvort hólfið í sömu tunnunni og plastumbúðum annars vegar og pappír og pappa hins vegar verður safnað í aðra tvískipta tunnu.

„Skýrslan er nú til umræðu á vettvangi sveitarfélaganna og er sú umræða mjög mikilvæg . Samræming sorphirðu á höfuðborgarsvæðinu og sérsöfnun á lífrænum eldhúsúrgangi yrði mikið framfaraskref fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélögin hafa unnið náið saman í samstarfi við fulltrúa SORPU undanfarna mánuði við gerð skýrslunnar og það er mín von að sveitarfélögin öll taki vel í tillögur að innleiðingu á nýju kerfi. Samræmt kerfi yrði betra en ósamræmt kerfi og myndi auðvelda íbúum að flokka úrgang sinn. Það auðveldar einnig fyrirtækjum sem meðhöndla úrganginn að koma honum í réttan farveg,“ segir Gunnar Einarsson, formaður stjórnar SSH. „Sérsöfnun á lífrænum eldhúsúrgangi er einnig mikilvæg aðgerð til að GAJA geti unnið moltu úr lífrænum eldhúsúrgangi frá höfuðborgarsvæðin.“

Í skýrslunni er lagt til að lífræna eldhúsúrgangnum verði safnað í bréfpoka sem sveitarfélögin útvegi íbúum. Pokarnir hafa gefist mjög vel á Norðurlöndunum og skipta lykilmáli til að hægt sé að vinna nothæfa moltu úr lífrænum úrgangi í GAJU. Dæmi um útfærslu í sérbýlum og fjölbýlum má finna hér að neðan og í skýrslunni sjálfri.

SamraemdSorphirda2Jan2022

Dæmi um útfærslu í sérbýli 

SamraemdSorphirdaJan2022

Dæmi um útfærslu í fjölbýli

Fleiri og betri grenndargámar

Til viðbótar við fjögurra flokka kerfi við heimili er lagt til að grenndarstöðvanetið verði þétt og að gleri, málmum, textíl og skilagjaldsskyldum umbúðum verði safnað á grenndarstöðvum sem verða í um það bil 500 metra fjarlægð frá hverju heimili. Stærri grenndarstöðvar verða í um það bil 1.000 metra fjarlægð frá hverju heimili og þar bætast við gámar fyrir pappír og pappa, og plast. Hlutverk endurvinnslustöðva SORPU verður óbreytt en þar geta íbúar höfuðborgarsvæðisins skilað öllum helstu úrgangsflokkum til meðhöndlunar.

Undirbúningur og vinnsla verkefnisins

Verkefnið um samræmda úrgangsflokkun á höfuðborgarsvæðinu er eitt af mörgum áhersluverkefnum Sóknaráætlunar höfuðborgarsvæðisins 2020-2024. Að sögn Páls Björgvins Guðmundssonar, framkvæmdastjóra SSH, er tillögugerðin og skýrslan um samræmda úrgangsflokkun nú í umfjöllun hjá aðildarsveitarfélögum SSH og vonast er til að umræðunni ljúki á næstu vikum. Þá má að lokum geta þess að fjölmörg önnur áhersluverkefni sóknaráætlunar eru nú í gangi m.a. drög að mótun loftslagsstefnu fyrir höfuðborgarsvæðið. Þessi tvö verkefni eru stærstu verkefnin undir hatti umhverfis- og samgöngumála innan sóknaráætlunar höfuðborgarsvæðisins.

Allar nánari upplýsingar er að finna í skýrslu starfshóps 

Ábendingagátt