Samstarf um uppbyggingu íbúða

Fréttir

Hafnarfjarðarbær og Alþýðusamband Íslands hafa undirritað viljayfirlýsingu um uppbyggingu 150 leiguíbúða í Hafnarfirði. Verkefnið verður unnið á grundvelli laga um almennar leiguíbúðir sem samþykkt voru á Alþingi 2. júní.

Hafnarfjarðarbær og Alþýðusamband Íslands hafa undirritað viljayfirlýsingu um uppbyggingu 150 leiguíbúða í Hafnarfirði. Verkefnið verður unnið á grundvelli laga um almennar leiguíbúðir sem samþykkt voru á Alþingi 2. júní síðastliðinn.

Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri í Hafnarfirði og Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambands Íslands undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um byggingu 150 leiguíbúða í Hafnarfirði á næstu fjórum árum til að svara enn betur þörf á leigumarkaði. Unnið verður að uppbyggingunni í samræmi við samþykktir ASÍ í húsnæðismálum og áherslur Hafnarfjarðarbæjar í húsnæðismálum.  

Vilyrði fyrir úthlutun á lóðum

ASÍ vinnur þessa dagana að stofnun og fjármögnun húsnæðissjálfseignarstofnunar sem kemur til með að starfa á landsvísu. Hafnarfjarðarbær hefur þegar gefið félaginu, sem mun starfa í umboði ASÍ, vilyrði fyrir úthlutun á lóðum fyrir uppbyggingu 150 almennra leiguíbúða. Markmiðið er að afhenda lóðir fyrir 32 íbúðir á yfirstandandi ári, 28 íbúðir árið 2017, 45 íbúðir árið 2018 og 45 íbúðir árið 2019. Ráðgert er að úthlutun 2016 nái til Hraunskarðs 2-4-6-8 og Hádegisskarðs 4-6. Gert er ráð fyrir þeim möguleika að hluti íbúðanna muni rísa sem hluti af verkefnum við þéttingu byggðar í Hafnarfirði. Fjölskylduþjónusta Hafnafjarðarbæjar mun hafa ráðstöfunarrétt yfir 25% íbúða sem byggðar verða samkvæmt viljayfirlýsingunni. Sameiginleg verkefnisstjórn skipuð aðilum frá Hafnarfjarðarbæ og ASÍ mun vinna að framgangi verkefnis næstu vikur og mánuði.  

Ábendingagátt