Samstarf við Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins undirritað

Fréttir

Samstarfssamningur Hafnarfjarðarbæjar og Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins ses. til tveggja ára var undirritaður nýverið af þeim Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra og Ingu Hlín Pálsdóttur framkvæmdastjóra markaðsstofunnar. Markaðsstofan er vettvangur til að markaðssetja og þróa áfangastaðinn höfuðborgarsvæðið í heild og ná þannig meiri samlegðaráhrifum og betri árangri.

Sérstök áhersla lögð á efla atvinnustarfsemi og auka gjaldeyristekjur

Samstarfssamningur Hafnarfjarðarbæjar og Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins ses. til tveggja ára var undirritaður nýverið af þeim Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra og Ingu Hlín Pálsdóttur framkvæmdastjóra markaðsstofunnar. Markaðsstofan er vettvangur til að markaðssetja og þróa áfangastaðinn höfuðborgarsvæðið í heild og ná þannig meiri samlegðaráhrifum og betri árangri. Markmið samningsins, sem nú hefur verið undirritaður, er að þróa og markaðssetja áfangastaðinn Hafnarfjörð sem heild með öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu í nánu og virku samtali og samvinnu allra sveitarfélaganna. Stofnanir á vegum sveitarfélagsins sem tengjast ferðamálum eru sjálfkrafa aðilar að stofunni s.s. ferða-, menningar- og íþróttastofnanir.

Helstu áherslur samstarfsins eru eftirfarandi:

  • Að efla vitund og þekkingu um áfangastaðinn og allt það sem svæðið hefur upp á að bjóða, jafnt fyrir ferðamenn og íbúa.
  • Að þróa, móta og efla samstarf og samlegð um málefni ferðaþjónustunnar á höfuðborgarsvæðinu milli sveitarfélaga, atvinnulífs, ríkisvaldsins og stoðkerfisins.
  • Að efla samkeppnishæfni og slagkraft áfangastaðarins í alþjóðlegri samkeppni.
  • Að stuðla að sátt íbúa, atvinnulífsins og sveitarfélaga um málefni ferðaþjónustunnar.
  • Að styrkja stoðir og uppbyggingu ferðaþjónustunnar, bæta ímynd svæðisins og auka eftirspurn eftir hvers konar þjónustu og atvinnustarfsemi.
  • Að annast markaðs- og kynningarstarf, áfangastaðaþróun og stuðla að fagmennsku
  • Að vera málsvari og samnefnari fyrir ferðaþjónustuna á höfuðborgarsvæðinu.

Samstarfsvettvangur sveitarfélaga, stjórnvalda og ferðamála á svæðinu

Stofan er markaðs- og áfangastaðastofa höfuðborgarsvæðisins og er samstarfsvettvangur sveitarfélaganna, stjórnvalda og atvinnugreinarinnar á svæðinu er kemur að ferðamálum. Samkvæmt skilgreiningu er áfangastaðastofa: svæðisbundin þjónustueining á vegum opinberra aðila og einkaaðila sem hefur það meginhlutverk að styðja við ferðaþjónustu í viðkomandi landshluta og tryggja að hún þróist í takt við vilja heimamanna þar sem sjálfbærni er höfð að leiðarljósi. Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins var stofnuð þann 3. apríl síðastliðinn í kjölfar ákvörðunar um að höfuðborgarsvæðið sé markaðsett sem einn áfangastaður. Markaðsstofan er áfangastaðastofa fyrir höfuðborgarsvæðið allt og þannig formlega sameiginlegur vettvangur fyrir markaðsetningu og þróun á áfangastaðnum höfuðborgarsvæðinu. Stofnaðilar eru Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) og Ferðamálasamtök höfuðborgarsvæðisins.

Vefur Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins ses.
Facebooksíða Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins ses.

Ábendingagátt