Samstarfsverkefni ungmennaráða „Höfn í Hafnarfirði“

Fréttir

Dagana 20. til 23. apríl leggur ungmennaráð Hafnar í Hornafirði land undir fót og heimsækir ungmennaráð Hafnarfjarðar. Um er að ræða samstarfsverkefni ungmennaráðanna tveggja sem ber yfirskriftina „Höfn í Hafnarfirði“.

Tilgangur þess er að ungmennaráðin öðlist dýpri skilning á stöðu jaðarsettra hópa í samfélaginu og finni leiðir til að tryggja að ungmennaráð landsins endurspegli betur fjölbreytileika samfélagsins. Samstarfinu lýkur svo með heimsókn ungmennaráðs Hafnarfjarðar til Hafnar og stefna ungmennin á að framleiða fræðslumyndband svo hægt sé að deila þekkingunni sem þau öðlast með öðrum ungmennaráðum í landinu.

Fulltrúar ungmennaráðanna hafa undanfarin misseri lagt nótt við nýtan dag við að skipuleggja heimsóknina og bóka fyrirlesara. Sem dæmi verða fyrirlestrar frá ungu flóttafólki, hinsegin fólki og fólki sem hefur látið sig réttindabaráttu fatlaðs fólks varða, auk þess sem ungmennin fá heimsóknir frá fulltrúa UNICEF og hafnfirska þingmanninum Ágústi Bjarna Garðarssyni. Fyrirlestrarnir og vinnustofurnar verða í Hamrinum – ungmennahúsi Hafnarfjarðar, til húsa að Suðurgötu 14.

Þetta er í fyrsta sinn sem ungmennaráð á Íslandi ráðast í samstarfsverkefni af þessu tagi með það markmið að styrkja lýðræðislega þátttöku jaðarsettra ungmenna. Verkefnið er styrkt af Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins.

Nánari upplýsingar um ungmennaráð Hafnarfjarðar.

Myndin er af hluta hópsins sem kemur frá Hornafirði.

Ábendingagátt