Sara og Karólína sigruðu í söngkeppni félagsmiðstöðvanna

Fréttir

Söngkeppni félagsmiðstöðva Hafnarfjarðar var haldin í Bæjarbíó 5. mars síðastliðinn. Hæfileikabúntin tvö sem keppa fyrir hönd Hafnarfjarðar í Söngkeppni Samfés 2025 eru Sara Karabin frá Mosanum í Hraunvallaskóla og Karólína Bríet Arelakis frá Setrinu í Setbergsskóla.

Söngur og sigrarar í söngkeppninni

Sara Karabin frá Mosanum í Hraunvallaskóla  og Karólína Bríet Arelakis frá Setrinu í Setbergsskóla sigruðu í Söngkeppni Hafnarfjarðar sem haldin var hátíðleg í Bæjarbíó 5. mars.

Þrettán frá 7 félagsmiðstöðvum tóku þátt í Söngkeppninni. Þessi árlegi viðburður er einn stærsti og flottasti viðburður félagsmiðstöðvanna á hverju ári.

Keppendur fengu faglega leiðsögn á generalprufu fyrir keppni frá Friðriki Helgasyni hljóðmanni og Rakel Björk Björnsdóttur leik- og tónlistarkonu. Mikið hugrekki þarf til að koma fram fyrir fullum sal af fólki. Frá fyrstu mínútu var alveg ljóst að gæsahúðin yrði ekki langt undan.

Atriðin tvö sem báru sigur úr býtum koma fram í Söngkeppni Samfés sem fer fram í Laugardalshöll í byrjun maí. Keppnin verður í beinni útsendingu á RÚV.

Kynnar kvöldsins voru Hulda Karen Bergmann og Rebekkah Chelsea. Þær héldu uppi stuðinu í salnum og leiddu áhorfendur í gegnum sannkallaða tónlistarveislu.

Keppendur voru:
  • Andrea Laxdal (Verið)
  • Anna Aðalsteinsdóttir og Arney Sif Zomers (Hraunið),
  • Hjörleifur Daði Oddson og Birna Lára Sigurðardóttir (Hraunið)
  • Karen Hrönn Guðjónsdóttir (Ásinn)
  • Karólína Bríet Arelakis (Setrið)
  • Sara Karabin (Mosinn)
  • Eva Dís Heiðarsdóttir (Nú)
  • Sara María Sigþórsdóttir (Setrið)
  • Sonia Laura Krasko (Mosinn), Sólrún Eva Hannesdóttir (Vitinn)
  • Styrmir Snær Árnason (Ásinn)

Enginn öfundaði dómnefndina af því að þurfa að velja á milli þessara hæfileikaríku ungmenna. Dómnefndina skipuðu Rebekka Sif Stefánsdóttir; lagahöfundur, söngkona og söngkennari, Steingrímur Daði Kristjánsson; lagahöfundur og söngvari, og Fjóla Sigrún Sigurðardóttir; deildarstjóri tómstundamiðstöðvar í Skarðshlíðarskóla.

Og hvernig voru atriðin?

  • Sara tók lagið „Ashes“ með Celine Dion og Karólína lagið „From the Start“ eftir Laufey.
  • Í öðru sæti voru þau Hjörleifur Daði Oddson og Birna Lára Sigurðardóttir frá Hrauninu í Víðistaðaskóla með lagið „Million Dreams“ úr The Greatest Showman.
  • Í þriðja sæti var Sólrún Eva Hannesdóttir frá Vitanum í Lækjarskóla með lagið „This is the Life“ með Amy Macdonald.

Við getum svo sannarlega verið stolt af frábæru unglingunum okkar sem tóku sig frábærlega vel út á stóra sviðinu! Hlökkum til að sjá fleiri blómstra í Söngkeppninni á næsta ári.

Ábendingagátt