Sérfræðingar frá Eistlandi heimsækja Norðurberg

Fréttir

Sextán eistneskir sérfræðingar frá menntastofnun Pernova heimsóttu leikskólann Norðurberg hér í Hafnarfirði í gær. Markmiðið var að kynnast grænfánastarfi skólans og voru þau heilluð af starfi og umhverfi skólans.

Alþjóðlegt samstarf og þekkingarmiðlun

Sextán eistneskir sérfræðingar frá menntastofnun Pernova – Pernova Hariduskeskus, heimsóttu leikskólann Norðurberg hér í Hafnarfirði í gærdag.

Markmiðið var að kynnast grænfánastarfi skólans. Grænfáninn er alþjóðlegt verkefni sem Landvernd er aðili að og er markmið þess að auka umhverfismennt og styrkja umhverfisvitund í skólum.

Sérfræðingarnir eru í nokkurra daga heimsókn hér á landi og komu víða við, heimsóttu Landvernd, söfn og stofnanir. Þeir höfðu fyrr um daginn heimsótt Ártúnsskóla, sem einnig er grænfánaskóli.

Heilluð af umhverfinu

Anna Borg Harðardóttir, skólastjóri leikskólans Norðurbergs, hélt erindi fyrir hópinn. „Þetta var mjög skemmtilegt. Þau voru áhugasöm og fannst gaman að koma inn í leikskólann, enda öll starfað við grunnskóla og höfðu fegið grænan fána fyrir 3 árum,“ segir hún.

„Þau voru heilluð af umhverfinu okkar hér í Norðurbergi. Við sýndum þeim meðal annars útikennslustofurnar,“ segir Anna.

„Við gáfum þeim líka rammíslenskar veitingar. Harðfisk, maltöl og íslenskt nammi. Þau voru sérlega hrifin af maltinu, fannst fiskurinn frábær og vildu vita hvar þau gætu fengið fisk til að taka með heim,“ segir Anna.

Sex deilda grænfánaleikskóli

Sigurlaug Arnardóttir er verkefnastjóri menntateymis Landverndar, Grænfána og Umhverfisfréttafólks og leiddi hópinn, sem hafði heimsótti einnig Landvernd.

Leikskólinn Norðurberg er staðsettur í norðurbæ Hafnarfjarðar og tók til starfa 16. ágúst 1982. Í dag er Norðurberg sex deilda leikskóli og í honum geta dvalið 101 börn samtímis og allt að 34 starfsmenn.

Ábendingagátt