Sesselja Elísabet Þorvaldsdóttir er 100 ára í dag
Sesselja Elísabet Þorvaldsdóttir, Elsa, er 100 ára í dag, fædd 3. apríl 1925 í Grunnavík á Ströndum.
Elsa fagnar 100 árum
Sesselja Elísabet Þorvaldsdóttir, Elsa, fagnar í dag 100 ára afmæli sínu. Valdimar Víðisson bæjarstjóri heimsótti hana á Sólvang rétt fyrir fjölskylduboðið sem hún heldur í dag í tilefni dagsins. Þau Valdimar og Elsa komust á flug við að rekja vestfirsku ættirnar sínar saman.
Sesselja er fædd 3. apríl 1925 í Grunnavík á Ströndum. Hún dvelur nú á Hjúkrunarheimilinu Sólvangi. Foreldrar hennar voru Guðrún J. Guðjónsdóttir húsmóðir, f. 18. júlí 1896, d. 6. júlí 1996 og Þorvaldur Pétursson sjómaður, f. 12. maí 1897, d. 10. janúar 1956.
Sesselja var elst níu systkina og systurnar þrjár. Systkinaröðin var þétt. Hún fædd 1925, Níelsína 1927, Margrét Guðný, 1928, Pétur fæddur 1930, Finnur árið 1931, Halldór 1932, Jón Arnór árið 1933, Gunnar 1934 og Jóhanna Stella yngst fædd 1938. Hálfbróðir Sesselju var svo Guðmundur Skúlason fæddur 1921.

Valdimar, María Bjarndís dóttir Elsu og Elsa sjálf á 100 ára afmælinu.
Barnaskari í Hnífsdal
Foreldrar Sesselju bjuggu í Hnífsdal með barnaskarann og var lífið ekki auðvelt á þessum tímum. Sesselja kynntist Finnboga Ingiberg Jónassyni frá Dýrafirði sem þá var við nám í húsasmíði á Ísafirði. Finnbogi fæddist á Ytri-Húsum í Dýrafirði 13. júlí 1924. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Sólvangi 10. janúar 2022.
Sesselja og Finnbogi hófu búskap á Flateyri við Önundarfjörð eftir trúlofun 1944. Þau voru gefin saman í hjónaband 19. október 1946 og höfðu því verið gift í rúmlega 76 ár þegar Finnbogi lést. Þau eignuðust þrjú börn.
Bjuggu lengst af í Kópavogi
Ekki var næg atvinna fyrir ungan húsasmið á Flateyri sem varð til þess að fjölskyldan flutti suður 1953. Bjó fjölskyldan hjá Valdimari bróðir Finnboga á meðan hann reisti einbýlishús að Digranesvegi 61 sem síðar varð númer 103 og enn síðar Digranesheiði 25. Síðustu búskaparárin voru svo að Gullsmára 9.
Eftir uppeldi barnanna vann Elsa, eins og hún var oftast kölluð, við fiskvinnslu, í prentsmiðju og síðar í Niðursuðuverksmiðjunni Ora. Þá starfaði hún nokkuð í seinni tíð fyrir mæðrastyrksnefnd í Kópavogi.
Innilega til hamingju með afmælið Elsa.
Myndatexti: Myndir hér fyrir neðan eru af heimsókn Valdimars til Elsu nú í morgun. Þar eru einnig aðrir gullmolar; Elsa ung og með systrum sýnum Margréti og Níelsínu. Einnig þegar hún tók þátt í tískusýningu í Gullsmára.