Sigrún Guðnadóttir sæmd pólskri heiðursorðu

Fréttir

Sigrún Guðnadóttir, forstöðumaður Bókasafns Hafnarfjarðar, hefur verið sæmd heiðursorðu Póllands. Orðan er heiðursviðurkenning fyrir þjónustu við pólska samfélagið og Pólverja erlendis. 

Sæmd heiðursorðu fyrir starf bókasafnsins

Sigrún Guðnadóttir, forstöðumaður Bókasafns Hafnarfjarðar, hefur verið sæmd heiðursorðu Póllands. Aleksander Kropiwnicki, sendiherra Póllands, veitti Sigrúnu merkið fyrir hönd Donalds Tusk forsætisráðherra Póllands fyrir tilstuðlan pólska sendiráðsins hér á landi. „Ég er stolt. Heiðurinn er mikill bæði fyrir mig og bókasafnið,“ segir Sigrún. Stundin í sendiráði Póllands var hjartnæm.

Orðan er heiðursviðurkenning fyrir þjónustu við pólska samfélagið og Pólverja erlendis. Hún er meðal annars veitt fyrir að styðja pólsk samfélög og miðla þekkingu og góðu nafni Póllands í hverju landi, styrkja pólska þjóðernisvitund og þekkingu á Póllandi meðal pólska samfélagsins og Pólverja erlendis.

„Pólland á sinn samastað á bókasafninu okkar. Við höldum úti virku starfi á pólsku og pössum að hér séu vinsælustu bókmenntirnar hverju sinni og viðburðir á pólsku,“ segir Sigrún. Bókasafnið hafi meðal annars verið valin utankjörfundarstaður Pólverja í síðustu þingkosningum þeirra.

Aleksander Kropiwnicki, sendiherra Póllands, Sigrún Guðnadóttir, forstöðumaður bókasafnsins, Sylwia Zajkowska umsjónarmaður pólska starfsins og Alicja Szreder-Soroka konsúll.

Pólska starfið kröftugt

Pólskir menningarviðburðirnir eru fjölmargir á bókasafninu. Nú styttist í þann vinsælasta, páskaeggjamálun, þá er pólski dagurinn haldinn árlega í nóvember. Gestirnir voru um 800 þann síðasta.

Katarzyna Chojnowska, Kasia, fyrrum starfsmaður bóksafns Hafnarfjarðar, fær einnig orðu í Póllandi fyrir öflugt menningarstarf bókasafnsins. Hún flutti aftur heim eftir sextán ára búsetu hér á landi í byrjun síðasta sumar. Kasia er brautryðjandi þróunar pólska starfsins á bókasafninu. Hún var meðal annars valin meðal pólskra persóna ársins 2023 fyrir að halda menningu Pólverja á lofti utan heimalandsins. Sylwia Zajkowska hefur tekið við taumum pólska starfsins á bókasafninu og heldur starfinu ótrauð áfram.

Hvatning til góðrar þjónustu

Sigrún leiðir starfs Bókasafni Hafnarfjarðar og hefur veitt því forstöðu frá árinu 2019. Bókasafnið er nú ríflega 100 ára og er við Strandgötu. Það flytur fyrir árslok í Fjörðinn, nútímavæðist og verður margmiðlunarsetur. „Við erum ákaflega spennt fyrir þessum breytingum. Þar verðum við með fjölbreytt starf og að sjálfsögðu áfram með öfluga pólska deild og viðburði. Orðan er mikil hvatning til okkar starfsfólks bókasafnsins að þjónusta íbúa Hafnarfjarðar með hjartanu.“

Innilega til hamingju Sigrún, Kasia og Sylwia. Við erum svo stolt af öflugu starfi bókasafnsins.

Ábendingagátt