Símafrí í apríl í grunnskólum Hafnarfjarðar

Fréttir

Fræðsluráð Hafnarfjarðar hefur samþykkt símafrí í öllum grunnskólum Hafnarfjarðar í apríl. Foreldraráð grunnskólabarna lagði hugmyndina til og er hún er studd af ungmennaráði. Nú verða línurnar um framkvæmdina lagðar.

Símanum gefið frí í öllum grunnskólum Hafnarfjarðar í apríl!

Fræðsluráð Hafnarfjarðar hefur samþykkt að símafrí verði í öllum grunnskólum Hafnarfjarðar í apríl næstkomandi. Tillagan felur í sér að nemendur 1.- 10. bekkjar verða ekki með síma uppi við á skólatíma innan veggja skólanna. Fram kemur í fundargerð fræðsluráðs frá 21. febrúar að tillaga þessi sé studd af ungmennaráði.

Bókun foreldraráðs hljómar eftirfarandi:

„Foreldraráð grunnskólabarna þakkar fræðsluráði fyrir að taka vel í hugmyndina um símafrí í grunnskólum Hafnarfjarðar og að hefja vinnu við það að skoða allar hliðar þess máls. Við erum þess fullviss að símafrí muni auka vellíðan og einbeitingu hjá nemendum og bæta skólabrag til muna. Ljóst er að til þess að símafrí heppnist vel þá þarf að bæta aðstöðu og afþreyingu fyrir nemendur. Símafrí í apríl er góð byrjun og vonandi fyrsta skrefið í átt að viðmiðunarreglum fyrir grunnskóla Hafnarfjarðar.“

Vilja jákvæðari skólabrag

Með samþykktinni svarar fræðsluráð óskum um símafrí. Vonir standa til að skólabragurinn í bænum verði enn jákvæðari með þessari ráðstöfun. Stefnt er að aukinni afþreyingu innan skólanna, skemmtilegum leikjum og skipulögðu starfi í frímínútumi. Næstu skref eru að útfæra með skólayfirvöldum, starfsfólki og nemendum hvernig fríinu verður háttað.

Ábendingagátt