Sjarmerandi sundhöll við Strandstíginn

Fréttir

Sundhöll Hafnarfjarðar er rómaður samveru- og heilsueflingarstaður Hafnfirðinga og gesta á öllum aldri.  Færst hefur í aukana að halda ýmsa viðburði í húsnæði sundhallarinnar, á laugarbakkanum enda vettvangurinn til skemmtunar og upplifunar einstakur. Hin hafnfirska Klara Elíasdóttir hélt tónleika á laugarbakkanum á aðventunni.

Rómaður samveru- og heilsueflingarstaður

Sundhöll Hafnarfjarðar er fyrsta sundlaugin í Hafnarfirði og var útilaug í 10 ár frá árinu 1943, þar til hún var yfirbyggð eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar, eins og margar þekktar byggingar í Hafnarfirði. Hún var fyrst um sinn sjósundlaug og sjónum var dælt úr hafinu með rafmagnsdælu, hann hitaður með kolabrennslu og hreinsaður í hreinsitækjum.

Þekkt fyrir sitt rólega og vinalega andrúmsloft

Laugin er rómaður samveru- og heilsueflingarstaður Hafnfirðinga og gesta á öllum aldri, enda á besta stað við Herjólfsgötu sem liggur samhliða Strandstígnum, vinsælustu gönguleið í Hafnarfirði. Heitir pottar eru úti við sundhöllina og kynjaðir gufuklefar inni við, þeir einu sinnar tegundar í bænum. Sundhöllin er þekkt fyrir sitt rólega og vinalega andrúmsloft, en þó er hún einnig þekkt fyrir að þar brotnaði framtönn stórsöngvarans Björgvins Halldórssonar, seint á 7. áratug síðustu aldar.

Einstakir jólatónleikar Klöru Elíasdóttur

Færst hefur í aukana að halda ýmsa viðburði í húsnæði sundhallarinnar, á laugarbakkanum enda vettvangurinn til skemmtunar og upplifunar einstakur. Á aðventunni var einmitt einn slíkur haldinn þegar söngkonan vinsæla, hin hafnfirska Klara Elíasdóttir, flutti þar ljúfa tónlist fyrir sundlaugargesti og kom þeim í jólaskap.

Þetta efni er úr jólablaði Hafnarfjarðar 2022

Ábendingagátt