Sjóbað fyrir hamingjusamari Hafnfirðinga í dag

Fréttir

Hamingjudagar í Hafnarfirði standa nú sem hæst. Hægt er að hitta hamingjuna í dag með þeim stöllum í Glaðari þú, sem draga okkur í sjóinn við Langeyrarmalir og bjóða okkur svo að hita upp í Herjólfsgufunni. Tökum þátt

Sjóbað fyrir hamingjusama Hafnfirðinga

„Ég get ekki hugsað mér að búa í lengri tíma fjarri köldum sjó,“ segir Margrét Leifsdóttir sem, ásamt Tinnu Thorlacius, leiðir Hamingjusjóbað við Langeyrarmalir kl. 17.30 í dag. Áhrifin séu slík og nauðsynlegt að komast reglulega í kaldann sjóinn. „Þetta er svo auðvelt, ókeypis og allt í kring. Þetta eru ómetanleg lífsgæði,“ segir hún.

Viðburðurinn er hluti Hamingjudaga í Hafnarfirði sem standa yfir nú í september. Dagarnir rétt hálfnaðir og fjöldi viðburða framundan. Nú við hamingjusjóbaðið er einnig opið í Herjólfsgufunni milli klukkan 17-19 og hægt að hita sig upp eftir baðið.

 

HamingjuSjóbað með Glaðari þú

 

 

Verðum öll Glaðari þú

Margrét og Tinna draga sitt fólk í sjóbað undir merkjunum Glaðari þú, og þannig verður það einnig eftir þetta bað í dag. Við verðum öll glaðari og hamingjusamari! En hvernig fer þetta fram í dag?

„Við munum spyrja: Hverjir eru að koma i fyrsta sinn í sjóinn? Við skiptum svo hópnum í tvennt þegar við förum í sjóinn, en hitum upp saman. Svo dönsum við á ströndinni á eftir,“ segir Margrét og fagnar því að opið verði í Herjólfsgufunni.

„Þá er hægt að skiptast á, eftir því hvað við verðum mörg. Við látum 15 köldustu fara fyrst í gufu en við hin höldum áfram að gera æfingar í um 10 mínútur. Ég vona að nokkrar komi okkur frá Glaðari. Þær geta beðið með gufuna. Þær eru vanar að fara ekki í heitt á eftir. Þær skella sér í þurran sloppinn,“ segir Margrét glaðlega og mælir með að fólk komi í slopp og úlpu yfir.

„Það munar svo miklu.“ Hún segir miklu muna fyrir áhrifin að hita sig upp áður en stokkið er í gufuna. „Með sjóbaðinu breytum við hvítri fitu í brúna. Hún brennir meira. Það gerist þegar líkaminn þarf að hita sig upp sjálfur. Það er því betra fyrri líkamann. Sérstaklega fyrir þau sem eru að byrja.“

Dýfa sér í sjóinn og sækja áhrifin

Margrét og Tinna hafa leitt sjóböð í fimm ár nú í nóvember. „Fólki hefur fjölgað gríðarlega sem stundar sjóböð. Þetta er orðið miklu eðlilegra en var bara fyrir fimm árum. Bæði sjósundsfólki en líka við sem erum í dippi,“ segir hún.

„Við erum ekki með sjósund heldur sjóböð. Við erum bara að slaka á og sækja 1-3 mínútur í sjónum. Við græðum ekkert á að vera lengur,“ segir hún og bætir við: „Við erum að sækja sem mest í sjóinn fyrir sem minnst.“ Áhuginn á því hafi aukist gríðarlega.

Sjálf byrjaði Margrét í sjóböðum í kringum 2006 eða fyrir nærri tuttugu árum „Þá var ég að fara einu sinni í viku. Ég var alltaf á leiðinni tvisvar en kom því ekki í prógrammið.“ Það hafi svo gerst þegar þær Tinna hófu að leiða sjóböðin og nú fer hún þrisvar í viku. „Það er munur af því að áhrifin duga í tvo til þrjá daga og þá þarf maður að fara aftur.“

 

Ábendingagátt