Sjómannadagshelgi í Hafnarfirði

Fréttir

Blásið verður til tveggja daga hátíðarhalda um helgina í Hafnarfirði í tilefni Sjómannadagsins. Fjöldi einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka hefur tekið sig saman og sett upp heimilislega dagskrá við Flensborgarhöfn sem höfðar til allrar fjölskyldunnar. Hátíðarsvæðið opnar kl. 13 báða dagana og er opið til klukkan 17.

Blásið verður til tveggja daga hátíðarhalda um helgina í Hafnarfirði í tilefni Sjómannadagsins. Fjöldi einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka hefur tekið sig saman og sett upp heimilislega dagskrá við Flensborgarhöfn sem höfðar til allrar fjölskyldunnar. Hátíðarsvæðið opnar kl. 13 báða dagana og er opið til klukkan 17. 

Sjómannadagurinn skipar stóran sess í hugum Hafnfirðinga enda saga sjómanna á svæðinu bæði innihaldsrík og djúpstæð. Hafnfirðingar hafa haldið Sjómannadaginn hátíðlegan allt frá árinu 1953 og stendur ekkert til að gefa nokkuð eftir við hátíðarhöldin þrátt fyrir fækkun skipa við höfnina og þróun í nýjar atvinnuáttir á svæðinu. Höfnin hefur breyst úr því að vera iðandi af lífi tengdu fiski og fiskvinnslu í það að vera iðandi af fjölbreyttu lista- og menningarlífi auk þess sem mikið af smábátum, kajökum og skútum eru á svæðinu. Skottmarkaður verður á bryggjunni á laugardag þar sem þátttakendum gefst tækifæri til að koma með alls konar gull og gersemar úr geymslunni og bjóða gestum og gangandi til sölu. Stæðið er ókeypis og allir velkomnir á meðan pláss leyfir.

Komdu heim í Hafnarfjörðinn um helgina!

Fjölbreytt dagskrá verður í boði við Flensborgarhöfn bæði laugardag og sunnudag og opnar hátíðarsvæðið klukkan 13 báða dagana og er opið til klukkan 17. Björgunarsveit Hafnarfjarðar býður meðal annars upp á þrautabraut í sjó, rennibraut, gámasig, kassaklifur, fluglínutækni og koddaslag. Siglingaklúbburinn Þytur verður með opið hús og býður öllum áhugasömum að máta sig við árabáta og kajaka auk þess sem boðið verður upp á skútusiglingar á kænum og kjölbátum. Skemmtisigling í minni Hafnarfjarðar verður í boði frá kl. 13-17 á Sjómannadaginn sjálfan. Um 15:30 hefst björgunarsýning sem þyrla Landhelgisgæslunnar tekur þátt í og mun Bergþór Ingibergsson stýrimaður á Barðanum GK afhenda þyrluáhöfninni styrk frá Bergþóri sjálfum og Sirivan konu hans og Kiwanis Eldborg. Um þessar mundir eru 30 ár liðin síðan áhöfn á Barðanum var bjargað um borð í þyrlu þegar skipið strandaði í Dritvík. Gjöfin verður nýtt til kaupa hjartahnoðtæki fyrir þyrluna.  

Dagskrá Sjómannadagshelgar er að finna HÉR

Ábendingagátt