Skapandi efnisveita á Stekkjarási á Degi leikskólans

Fréttir

Dagur leikskólans er haldinn hátíðlegur í leikskólum landsins í dag 6. febrúar og hefur bæjarstjóri Hafnarfjarðar haft það fyrir sið að heimsækja a.m.k. einn leikskóla innan sveitarfélagsins í tilefni dagsins. Nemendur og starfsfólk í leikskólanum Stekkjarási tóku vel á móti bæjarstjóra, Rósu Guðbjartsdóttur, í morgunsárið og buðu henni að taka þátt í skapandi efnisveitu með sér en slík veita skapar stóran sess í starfsaðferðum Stekkjaráss. 

Dagur leikskólans er haldinn hátíðlegur í leikskólum landsins í dag 6. febrúar og hefur bæjarstjóri Hafnarfjarðar haft það fyrir sið að heimsækja a.m.k. einn leikskóla innan sveitarfélagsins í tilefni dagsins. Nemendur og starfsfólk í leikskólanum Stekkjarási tóku vel á móti bæjarstjóra, Rósu Guðbjartsdóttur, í morgunsárið og buðu henni að taka þátt í skapandi efnisveitu með sér en slík veita skapar stóran sess í starfsaðferðum Stekkjaráss. Þessi skapandi efnisveita í Stekkjarási er búin að vera opin áhugasömum; foreldrum, forráðamönnum, ömmum, öfum, systkinum og eldri nemendum, alla vikuna og mun vera opin áfram út vikuna frá kl. 14:30 – 16:30. 

IMG_0495

ReMida – skapandi efnisveita

Í tilefni af Degi leikskólans hefur leikskólinn Stekkjarás sett upp á sal litla ReMidu sem á íslensku gengur undir heitinu skapandi efnisveita. Nafnið ReMida er sótt í söguna um Midas konung, sem hafði fengið þá ósk sína uppfyllta, að allt sem hann snerti breyttist í gull. Í leikskólunum, sem starfar eftir Reggio Emilia, nota börn m.a. „verðlausan“ efnivið til að útfæra hugmyndir sínar á fjölbreyttan og skapandi hátt í byggingar og listaverk. Í efnisveitu Stekkjaráss er notaður endurnýtanlegur efniviður sem hægt er að nota á fleiri en einn máta. Þannig fá börnin að vinna með efniviðinn á frjálsan hátt og fá tækifæri til að rannsaka og gera tilraunir og nýta þannig eigið hugmyndaflug og sköpun. Efniviðurinn er fenginn úr ýmsum áttum, meðal annars frá fyrirtækjum, foreldrum og starfsfólki. Afrakstur sköpunar barnanna prýðir veggi og loft skólans sem og hafnfirsk heimili.

Um leikskólann Stekkjarás

Leikskólinn Stekkjarás tók til starfa árið 2004 og fagnar því 16 ára afmæli á þessu ári. Hann er einn sá stærsti á landinu sem er ein leikskólabygging og byggður sem slíkur, átta deilda með um 170 börn. Á leikskólanum er starfað eftir hugmyndafræði Reggio Emilia og endurspeglast sú uppeldissýn í öllu starfi skólans. Það sem einkennir skólann er m.a. skapandi hugsun, notkun opins efniviðs (Remida) í listsköpun, útinám, leikurinn, aldursblöndun, sérkennsla og gott foreldrasamstarf. Leikskólastjóri er Alda Agnes Sveinsdóttir

Einkunnarorð leikskólans eru: Hugmyndir barnsins – verkefni dagsins

Um Dag leikskólans

Félag leikskólakennara, menntamálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og Heimili og skóli, standa fyrir „degi leikskólans“ þann 6. febrúar, en þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Markmiðið með deginum er að vekja athygli á þýðingu leikskóla fyrir börn og skapa jákvæða ímynd leikskólakennslu. Deginum er einnig ætlað að vekja athygli á stöðu leikskólans, gildi hans fyrir þjóðarauð og alla menningu. Þetta er í 13. skipti sem deginum er fagnað með formlegum hætti og er deginum þannig fagnað á fjölbreyttan hátt heilt yfir í leikskólum Hafnarfjarðar. Leikskólakennarar og allir aðrir áhugasamir eru hvattir til að deila myndum og frásögnum á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #dagurleikskolans2020

Ábendingagátt