Skapandi sumarstörf – Brynja – Myndlist í Hellisgerði

Fréttir

Brynja Valdís Waage, nemandi á myndlistarbraut við Fjölbrautaskólann í Garðabæ, heldur myndlistarsýningu í Hellisgerði 10. ágúst næst komandi, á vegum skapandi sumarstarfa í Hafnarfirði. Þar má sjá túlkun ungu listakonunnar á ýmsum þekktum Hafnfirskum kennileitum og þjóðsagna verum þeim tengdum.

Brynja Valdís Waage, nemandi á myndlistarbraut við Fjölbrautaskólann í Garðabæ, vinnur  á vegum skapandi sumarstarfa í ár að sex listaverkum sem draga innblástur sinn frá náttúru, kennileitum og þjóðsögum úr Hafnarfirði.

Endurvakning sköpunargleðinnar

“Mig hefur alltaf dreymt um að gera list af eitthverju tagi, en undanfarin ár hefur sá áhugi farið dvínandi. Ég átti erfitt með að finna innblástur og vildi ekki gera bara hvað sem er, frekar eitthvað með dýpri merkingu. Ég tel að lausnin hafi verið að leita aftur í rætur mínar og það sem kveikti neistann voru goð- og þjóðsagnasögur. Þessi myndlistar-sería er mín leið til að endurvekja sköpunargleðina mína, en einnig til að kynnast Hafnarfirði betur út frá mínu innra barni”, segir Brynja um verkefnið.

Lokaafrakstur sumarsins má sjá á myndlistarsýningu í Hellisgerði laugardaginn 10.ágúst.

Við hvetjum alla áhugasama til að mæta og njóta sýningarinnar í skrúðgarðinum fagra!

UM SKAPANDI SUMARSTÖRF 2024

Sumarið 2021 ákvað Hafnarfjarðarbær í samstarfi við Ungmennahús bæjarins, Hamarinn, að endurvekja verkefnið “Skapandi sumarstörf” sem hafði verið starfrækt sumarið 2017. Þá bauðst einstaklingum og hópum á aldrinum 18-25 ára að koma með hugmyndir að skapandi verkefnum í Hafnarfirði. Valdir hópar fengu tækifæri til að starfa við ýmis skapandi verkefni á ýmsum sviðum lista sem einnig myndu lífga upp á mannlífið í bænum, gleðja ferðamenn og íbúa með einum eða öðrum hætti. Starfsfólki Skapandi sumarstarfa, sem rekið er sem hluti af Vinnuskóla Hafnarfjarðar er ætlað að glæða bæinn lífi, gera hann skemmtilegri, fallegri og fjölbreyttari með listrænum og skapandi uppákomum. Verkefnin eru fjölbreytt og höfða til mismunandi aldurshópa og áhugasviða. Klara Ósk Elíasdóttir er verkefnastýra Skapandi sumarstarfa.

Í ár eru sjö fjölbreyttir hópar og einstaklingar sem starfa á vegum skapandi sumarstarfa og verða þau kynnt vikulega í sumar.

Ábendingagátt