Skapandi sumarstörf – GOLA – Tónleikar í Hellisgerði

Fréttir

Á vegum skapandi sumarstarfa hafa þær Svanhildur Júlía Alexandersdóttir og Hildur Arna Hrafnsdóttir leikið á þverflautur, kynnt sögu þessa fallega hljóðfæris og skemmt bæjarbúum í allt sumar undir nafninu GOLA. Þann 10. ágúst næst komandi munu þær halda litla tónleika í Hellisgerði fyrir opnun myndlistasýningar á verkum Brynju Waage.

Flautudúettinn GOLA

Á vegum skapandi sumarstarfa hafa þær Svanhildur Júlía Alexandersdóttir og Hildur Arna Hrafnsdóttir ferðast um bæinn í allt sumar undir nafninu GOLA og spilað fagra tóna á þverflautur fyrir bæjarbúa. Meðal annars á Austurgötuhátíðinni á 17.júní, kaffihúsum, hjúkrunarheimilum og leiksskólum og kynnt þetta fallega hljóðfæri fyrir áhorfendum.

Stefna á að verða atvinnu flautuleikarar

„Við heitum Svanhildur og Hildur og erum þverflautu-dúettinn Gola. Við höfum verið að spila tónlist fyrir fólk um allan Hafnarfjarðarbæ í sumar. Við höfum báðar æft á flautu í um níu ár og stundum tónlistarnám við Menntaskólann í Tónlist. Við stefnum á að verða atvinnu flautuleikarar í framtíðinni.“

Listahátíð í Hellisgerði

Skapandi sumarstörf 2024 bjóða bæjarbúa velkomna á listasýningu í Hellisgerði þar sem frumsýnd verða tvö verkefni laugardaginn 10. ágúst. Sýningin hefst kl 13:30 á tónlistarflutningi frá tónlistarkonunum í GOLA. Eftir létta tónleika býður listakonan Brynja Waage gestum velkomna á sýningu á verkum sínum sem verða staðsett víðsvegar um garðinn. Verkin eru undurfögur og endurspegla sýn Brynju á Hafnarfjörð og upplifun af nátturu bæjarins. Náttúran fær að vera í stærra hlutverki í þessari sýningu en ella, þar sem að málningin sem Brynja notaði á verkin er vatnsuppleysanleg. Svo ef að það rignir verður það ákvörðun náttúrunnar og Hellisgerðis í allri sinni dýrð, að blanda sér í lokaútkomuna og setja mark sitt á verkin. Það verður því sannkölluð listahátíð í Hellisgerði og við hvetjum alla áhugasama til að mæta og njóta sköpunargleðinnar í skrúðgarðinum fagra!

Sjá tónleika viðburð á Facebook

Fylgjast með þverflautudúettnum á Instagram

 

UM SKAPANDI SUMARSTÖRF 2024

Sumarið 2021 ákvað Hafnarfjarðarbær í samstarfi við Ungmennahús bæjarins, Hamarinn, að endurvekja verkefnið “Skapandi sumarstörf” sem hafði verið starfrækt sumarið 2017. Þá bauðst einstaklingum og hópum á aldrinum 18-25 ára að koma með hugmyndir að skapandi verkefnum í Hafnarfirði. Valdir hópar fengu tækifæri til að starfa við ýmis skapandi verkefni á ýmsum sviðum lista sem einnig myndu lífga upp á mannlífið í bænum, gleðja ferðamenn og íbúa með einum eða öðrum hætti. Starfsfólki Skapandi sumarstarfa, sem rekið er sem hluti af Vinnuskóla Hafnarfjarðar er ætlað að glæða bæinn lífi, gera hann skemmtilegri, fallegri og fjölbreyttari með listrænum og skapandi uppákomum. Verkefnin eru fjölbreytt og höfða til mismunandi aldurshópa og áhugasviða. Klara Ósk Elíasdóttir er verkefnastýra Skapandi sumarstarfa.

Í ár eru sjö fjölbreyttir hópar og einstaklingar sem starfa á vegum skapandi sumarstarfa og verða þau kynnt vikulega í sumar.

Ábendingagátt