Skapandi sumarstörf – Hama

Fréttir

Humans of Hafnarfjörður, snýst um að kynna fólkið í kringum okkur og söguna sem þau hafa að segja. Markmiðið er að ýta undir þetta fallega samfélag sem við eigum hér í bænum, hvetja fólk til umhugsunar og sýna þakklæti fyrir hversdaginn og þá fjölbreyttu reynslu sem myndar sögu hvers og eins.

Ég heiti Hama og hef verið ljósmyndari um nokkurt skeið. Ég kom upprunalega til Íslands til að læra kvikmyndagerð. En í þakklætisskyni fyrir allt það sem Hafnarfjörður hefur gefið mér á meðan ég hef búið hér, vildi ég skilja eftir nokkra mola af góðmennsku á vegum skapandi sumarstarfa, áður en ég held aftur út á vit ævintýranna.

Ég var að vinna að verkefni sem nefndist „Humans of kurdistan“, sem var innblásið af „Humans of New York“, sem skyggir inn í daglegt líf New York búa. Þá datt mér í hug að færa þessa hugmynd til Hafnarfjarðar og vinna í henni á vegum skapandi sumarstarfa.

Verkefnið snýst um að kynna fólkið í kringum okkur og söguna sem þau hafa að segja. Markmiðið er að ýta undir þetta fallega samfélag sem við eigum hér í bænum, hvetja fólk til umhugsunar, sýna þakklæti fyrir hversdagsleikann og þá fjölbreyttu reynslu sem myndar sögu hvers og eins. Hvað segja mismunandi kynslóðir, hvað höfum við sameiginlegt og hvað getum við lært af hvor öðru?

Verkefnið er sett þannig upp að Hama setur inn færslur á Instagram með mynd af viðmælenda og þeirra sögu, lífsreynslu og þekkingu. Hann líkir því við gömlu góðu símaskránna, en í staðinn fyrir nafn og símanúmer, sjáum við nafn og sögu. Með því býr hann til vandað safn af sögum bæjarbúa, sem getur veitt öðrum innblástur og ýtir undir sköpunarkraftinn.

„Í hvert skipti sem ég hef tekið viðtal, fæ ég drifkraftinn til að halda áfram, hitta fleiri Hafnfirðinga og deila þeirra merkilegu sögu. Mér finnst virkilega gefandi að búa til kvikmyndir, taka ljósmyndir, vinna við hljóðvinnslu og fyrst og fremst að gefa af mér hamingju. Það er ótrúlegt hvað þú getur haft mikil áhrif á dag annara, ef þú gerir allt með bros á vör.“

Humans of Hafnarfjörður á Instagram Humans of Hafnarfjörður (@humansofhfj) • Instagram photos and videos

UM SKAPANDI SUMARSTÖRF 2023

Sumarið 2021 ákvað Hafnarfjarðarbær í samstarfi við Ungmennahús bæjarins, Hamarinn, að endurvekja verkefnið “Skapandi sumarstörf” sem hafði verið starfrækt sumarið 2017. Þá bauðst einstaklingum og hópum á aldrinum 18-23 ára að koma með hugmyndir að skapandi verkefnum í Hafnarfirði. Valdir hópar fengu tækifæri til að starfa við ýmis skapandi verkefni á ýmsum sviðum lista sem einnig myndu lífga upp á mannlífið í bænum, gleðja ferðamenn og íbúa með einum eða öðrum hætti. Starfsfólki Skapandi sumarstarfa, sem rekið er sem hluti af Vinnuskóla Hafnarfjarðar er ætlað að glæða bæinn lífi, gera hann skemmtilegri, fallegri og fjölbreyttari með listrænum og skapandi uppákomum. Verkefnin eru fjölbreytt og höfða til mismunandi aldurshópa og áhugasviða. Klara Ósk Elíasdóttir er verkefnastýra Skapandi sumarstarfa.

 

Í ár eru níu fjölbreyttir hópar og einstaklingar sem starfa á vegum skapandi sumarstarfa og verða þau kynnt vikulega í sumar.

Ábendingagátt