Skapandi sumarstörf – Iða – Ljóðlist

Fréttir

Iða Ósk Gunnarsdóttir vinnur að sinni fyrstu ljóðabók á vegum skapandi sumarstarfa í Hafnarfirði í ár. Útlit bókarinnar tekur innblástur frá spilastokki og verður í heildina 52 blaðsíður. Ljóðin sjálf eru perónuleg en ætluð öllum. Markmið verkefnisins er að hvetja fólk til að skoða umhverfið sitt betur og leyndardómana sem þar leynast.

Innblástur fengin frá hefðbundnum spilastokki

„Í sumar vinn ég að minni fyrstu ljóðabók. Bókin er innblásin af spilastokki og verður í heildina 52 blaðsíður, hver síða er algerlega einstök eins og í spilastokki, sem við þekkjum öll svo vel. Ég skrifa ljóðin og myndskreyti bókina sjálf, en ég hef leikið mér mikið með klippimyndir og stuðst við spilastokkinn sjálfan við myndskreytingu.“

Ljóðlist ætluð öllum

„Ég hrífst mikið af Hafnarfirði, eins og kemur vel fram í bókinni. Þar kemur álfkonan mikið við sögu, sem og fegurð bæjarins. Ljóðin sjálf eru perónuleg en ætluð öllum og ég vona að hún hvetji fólk til að skoða umhverfið sitt betur og leyndardómana sem þar leynast. Það er markmið verkefnisins. Í lok sumars, á lokahófi skapandi sumarstarfa, mun ég lesa upp úr bókinni og hafa myndskreytingarnar til sýnis. Hver veit nema það verði nokkur eintök til sölu svo fólk geti einnig notið hennar heimanfrá.“

„Sjálf er ég á leiklistarbraut í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ og klára þar næsta vor. Ég hef skrifað ljóð allt mitt líf og finn mikla hugaró í því. Það er eitthvað við að skrifa texta um lífið sem fólk þarf að rýna soldið í til að skilja. Ég hef bæði gaman að hefðbundum og óhefðbundum ljóðum og koma þau í bland á blaðsíðum bókarinnar.“

Við hvetjum ykkur eindregið til að fylgjast með framvindu verkefnisins á samfélagsmiðli verkefnisins. „Ég er virk á instagram og sýni þar hvað ég er að bralla á hverjum degi – slóðin þangað er @hringida_

UM SKAPANDI SUMARSTÖRF 2025

Sumarið 2021 ákvað Hafnarfjarðarbær í samstarfi við Ungmennahús bæjarins, Hamarinn, að endurvekja verkefnið “Skapandi sumarstörf” sem hafði verið starfrækt sumarið 2017. Þá bauðst einstaklingum og hópum á aldrinum 18-25 ára að koma með hugmyndir að skapandi verkefnum í Hafnarfirði. Valdir hópar fengu tækifæri til að starfa við ýmis skapandi verkefni á ýmsum sviðum lista sem einnig myndu lífga upp á mannlífið í bænum, gleðja ferðamenn og íbúa með einum eða öðrum hætti. Starfsfólki Skapandi sumarstarfa, sem rekið er sem hluti af Vinnuskóla Hafnarfjarðar er ætlað að glæða bæinn lífi, gera hann skemmtilegri, fallegri og fjölbreyttari með listrænum og skapandi uppákomum. Verkefnin eru fjölbreytt og höfða til mismunandi aldurshópa og áhugasviða. Þorbjörg Signý Ágústsson er verkefnastýra Skapandi sumarstarfa.

Í ár eru níu fjölbreytt verkefni sem starfa á vegum skapandi sumarstarfa og verða þau kynnt vikulega í sumar.

Ábendingagátt