Skapandi sumarstörf – Mirra – Tilfinningar

Fréttir

Mirra Björt Hjartardóttir er listakona og frumkvöðull búsett í Garðabæ. Í sumar vinnur hún á vegum Skapandi sumarstarfa að verkefninu „Tilfinningar“,  sem snýst um að styðja ung börn í að skilja eigin tilfinningar, setja sig í spor annarra og læra að tjá sig á jákvæðan og meðvitaðan hátt.

Mirra Björt Hjartardóttir er listakona og frumkvöðull búsett í Garðabæ. Í sumar vinnur hún að verkefninu „Tilfinningar“, sem hluti af Skapandi sumarstörfum 2025.

Styðjum ung börn í að skilja eigin tilfinningar

„Verkefnið snýst um að styðja ung börn í að skilja eigin tilfinningar, setja sig í spor annarra og læra að tjá sig á jákvæðan og meðvitaðan hátt. Tilfinningar byggir á myndrænni hönnun og einfaldri sögugerð þar sem tilfinningar birtast á aðgengilegan og leikrænan hátt. Í gegnum umræðukortin fá börn tækifæri til að tengjast eigin upplifunum, læra orð yfir tilfinningar og efla tilfinningagreind í skapandi og öruggu rými.“

Með verkefninu sameinar Mirra ástríðu sína fyrir list, frásögn og velferð barna. Markmið þess er að þróa verkfæri sem styðja við leik, tengsl og þroska, bæði fyrir börn og uppalendur þeirra. Þetta er framtíðarverkefni sem hún vonast til að þróa áfram á fjölbreyttan hátt.

  • Við hvetjum alla áhugasama til að fylgjast með þessari efnilegu listakonu og frábæra verkefni HÉR á Instagram.

Lokahóf verður haldið þann 29. júlí í Nýsköpunarsetrinu við Lækinn, þar verður góð dagskrá, opið hús og stutt kynning frá Mirru um verkefnið og þróun þess. Gestir fá einnig tækifæri til að skoða og prófa umræðukortin á staðnum.

UM SKAPANDI SUMARSTÖRF 2025

Sumarið 2021 ákvað Hafnarfjarðarbær í samstarfi við Ungmennahús bæjarins, Hamarinn, að endurvekja verkefnið “Skapandi sumarstörf” sem hafði verið starfrækt sumarið 2017. Þá bauðst einstaklingum og hópum á aldrinum 18-25 ára að koma með hugmyndir að skapandi verkefnum í Hafnarfirði. Valdir hópar fengu tækifæri til að starfa við ýmis skapandi verkefni á ýmsum sviðum lista sem einnig myndu lífga upp á mannlífið í bænum, gleðja ferðamenn og íbúa með einum eða öðrum hætti. Starfsfólki Skapandi sumarstarfa, sem rekið er sem hluti af Vinnuskóla Hafnarfjarðar er ætlað að glæða bæinn lífi, gera hann skemmtilegri, fallegri og fjölbreyttari með listrænum og skapandi uppákomum. Verkefnin eru fjölbreytt og höfða til mismunandi aldurshópa og áhugasviða. Þorbjörg Signý Ágústsson er verkefnastýra Skapandi sumarstarfa.

Í ár eru níu fjölbreytt verkefni sem starfa á vegum skapandi sumarstarfa og verða þau kynnt vikulega í sumar.

Ábendingagátt