Skapandi sumarstörf – Rán Sigurjónsdóttir

Fréttir

Rán Sigurjónsdóttir, 20 ára grallari og nemi í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands, heldur fræðandi listasýningu um Sædýrasafnið í Hafnarborg 25. júlí til 5. ágúst næst komandi, á vegum skapandi sumarstarfa í Hafnarfirði.

Rán Sigurjónsdóttir, 20 ára grallari og nemi í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands, heldur fræðandi listasýningu um Sædýrasafnið í Hafnarborg 25. júlí til 5. ágúst næst komandi, á vegum skapandi sumarstarfa í Hafnarfirði.

Minning safnsins lifir áfram

Sædýrasafnið í Hafnarfirði starfaði frá árinu 1969 til ársins 1987. Hinar ýmsu framandi dýrategundir voru þar til sýnis, meðal þeirra eftirminnilegustu má nefna ljón, apa og ísbirni. Safnið var vel sótt og þó að Sædýrasafninu hafi verið lokað seint á síðustu öld lifir minning þess áfram.

Rán fékk hugmyndina að því að gera verkefni og halda sýningu um Sædýrasafnið út frá samtali við föður sinn um merkilegar staðreyndir um Hafnarfjarðarbæ. En markmið verkefnisins er að fræða fólk um safnið, þá sérstaklega yngri kynslóðirnar sem vita mögulega ekki að safnið hafi verið til. Rán hefur unnið markvisst að því í sumar að fræðast um safnið, taka viðtöl við aðila sem muna vel eftir safninu og upplifun þeirra á því.

Afrakstur sumarsins verður sýndur í Hafnarborg

Í samstarfi við skapandi sumarstörf í Hafnarfirði verður haldin fræðandi listasýning um Sædýrasafnið í Hafnarborg í Hafnarfirði, opin öllum áhugasömum frá 25.júlí til 5.ágúst. Formleg opnun sýningarinnar verður haldin fimmtudaginn 25. júlí frá kl. 16 til 18.

„Það er frítt inn í Hafnarborg og öll eru velkomin. Sýningin verður staðsett á jarðhæð í innri salnum. Endilega komdu og gakktu inn í framandi heim sem er meira en lítið áhugaverður í nútímanum.“ Segir Rán Sigurjónsdóttir á síðu viðburðarins.

  • Sjá viðburð á Facebook
  • Sjá grein um verkenfið á mbl.is (Morgunblaðið) hér
  • Hlusta á viðtal á Rás 1 hér
Við hlökkum til að sjá lokaafraksturinn á þessu merkilega og fræðandi verkefni í Hafnarborg!

UM SKAPANDI SUMARSTÖRF 2024

Sumarið 2021 ákvað Hafnarfjarðarbær í samstarfi við Ungmennahús bæjarins, Hamarinn, að endurvekja verkefnið “Skapandi sumarstörf” sem hafði verið starfrækt sumarið 2017. Þá bauðst einstaklingum og hópum á aldrinum 18-25 ára að koma með hugmyndir að skapandi verkefnum í Hafnarfirði. Valdir hópar fengu tækifæri til að starfa við ýmis skapandi verkefni á ýmsum sviðum lista sem einnig myndu lífga upp á mannlífið í bænum, gleðja ferðamenn og íbúa með einum eða öðrum hætti. Starfsfólki Skapandi sumarstarfa, sem rekið er sem hluti af Vinnuskóla Hafnarfjarðar er ætlað að glæða bæinn lífi, gera hann skemmtilegri, fallegri og fjölbreyttari með listrænum og skapandi uppákomum. Verkefnin eru fjölbreytt og höfða til mismunandi aldurshópa og áhugasviða. Klara Ósk Elíasdóttir er verkefnastýra Skapandi sumarstarfa.

Í ár eru sjö fjölbreyttir hópar og einstaklingar sem starfa á vegum skapandi sumarstarfa og verða þau kynnt vikulega í sumar.

Ábendingagátt