Skapandi sumarstörf – Rán Sigurjónsdóttir – Myndlist

Fréttir

Rán Sigurjónsdóttir, nemi í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands, heldur einstaka listasýningu í The Shed í byrjun september, á vegum skapandi sumarstarfa í Hafnarfirði, þar sem hún miðlar sinni sýn á heim álfanna í olíumálverkum á viðarplötur.

Annað árið í röð að starfa við Skapandi sumarstörf

Unga listakonan Rán Sigurjónsdóttir, nemi í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands, heldur einstaka listasýningu í The Shed í byrjun september, á vegum skapandi sumarstarfa í Hafnarfirði, þar sem hún miðlar sinni sýn á heim álfanna í olíumálverkum á viðarplötur.

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á því að mála og öllu í tengslum við listsköpun frá því að ég man eftir mér og hef sótt á ýmis námskeið í Myndlistaskóla Reykjavíkur.“ Segir Rán, sem stundaði áður nám á myndlistarbraut við Fjölbrautaskólann í Garðabæ.

„Síðasta sumar var ég einnig svo heppin að fá að starfa við Skapandi sumarstörf hér í Hafnarfirði, þá hélt ég fræðandi listsýningu í Hafnarborg sem bar nafnið Minningar um Sædýrasafnið.“

  • Sjá fréttina frá í fyrra hér

Hvernig sjá álfarnir heiminn?

„Ástæða þess að ég valdi þetta viðfangsefni er vegna þess að sögur af álfum og trú á þá eiga sér sterkar rætur hér í Hafnarfirði. Ég ólst sjálf upp í götunni fyrir ofan Hellisgerði og ráfaði oft um náttúruna með þeirri trú að álfarnir byggju í hrauninu. Ég gat gengið upp að hvaða Hafnfirðingi sem er og spurt hann út í verurnar handan okkar heims. Þessi tenging við hulduverur virðist mér einstök fyrir Hafnarfjörð. Þó að ekki allir Hafnfirðingar trúi eða hafi trúað á álfa hafa allir sína reynslu og upplifun af þeim, þó svo að það séu aðeins sögusagnir. Ég held því að fólki gæti fundist forvitnilegt að sækja á þessa sýningu og sjá hvernig ég held að álfar sjái heiminn og geti þá út frá þeirri sýn dregið sínar eigin ályktanir.“

Afrakstur sumarsins til sýnis í The Shed

„Í byrjun september mun ég halda myndlistarsýningu í The Shed þökk sé örlæti Anthony Bacigalupo og Ýr Káradóttur, sem reka þessa vönduðu verslun og samkomurými af ástríðu fyrir listum og menningarlífi.“

„Á sýningunni verða sýnd nokkur olíumálverk, máluð á stórar viðarplötur. Verkin sjálf eru innblásin af náttúrunni hér í Hafnarfirði eða heimkynnum álfanna. Í verkum mínum notast ég við mjúka pastel liti sem gera raunveruleikann að einhverskonar óraunveruleika. Eða þá hvernig ég sé fyrir mér að álfar sjái heiminn. Ég mun setja upp Facebook viðburð þegar nær dregur. ​​Öll eru velkomin, og vonandi nær sýningin að miðla broti af þeirri gleði sem ég hafði af að skapa hana.“

Við hvetjum ykkur eindregið til að fylgjast með nánari tímasetningu á viðburðinum sem og þessari fjölhæfu og skapandi listakonu, sjá á Instagram hér.

Sjá viðburð.

UM SKAPANDI SUMARSTÖRF 2025

Sumarið 2021 ákvað Hafnarfjarðarbær í samstarfi við Ungmennahús bæjarins, Hamarinn, að endurvekja verkefnið “Skapandi sumarstörf” sem hafði verið starfrækt sumarið 2017. Þá bauðst einstaklingum og hópum á aldrinum 18-25 ára að koma með hugmyndir að skapandi verkefnum í Hafnarfirði. Valdir hópar fengu tækifæri til að starfa við ýmis skapandi verkefni á ýmsum sviðum lista sem einnig myndu lífga upp á mannlífið í bænum, gleðja ferðamenn og íbúa með einum eða öðrum hætti. Starfsfólki Skapandi sumarstarfa, sem rekið er sem hluti af Vinnuskóla Hafnarfjarðar er ætlað að glæða bæinn lífi, gera hann skemmtilegri, fallegri og fjölbreyttari með listrænum og skapandi uppákomum. Verkefnin eru fjölbreytt og höfða til mismunandi aldurshópa og áhugasviða. Þorbjörg Signý Ágústsson er verkefnastýra Skapandi sumarstarfa.

Í ár eru níu fjölbreytt verkefni sem starfa á vegum skapandi sumarstarfa og verða þau kynnt vikulega í sumar.

Ábendingagátt