Skapandi sumarstörf – Rayan

Fréttir

Rayan er að vinna að listrænu verkefni, á vegum skapandi sumarstarfa, sem felur í sér samstarf milli gervigreindar og þörf manneskjunnar fyrir listsköpun. Lokaútkoman verður að vandaðri stuttmynd um helgisiði sem er innblásin af hópi flóttafólks frá Venesúela sem hafa fundið sér sitt annað heimili í Hamrinum.

Skapandi sumarstörf – Rayan Galal Aboul Hosn Zghayer

Rayan er að vinna að listrænu verkefni, á vegum skapandi sumarstarfa, sem felur í sér samstarf milli gervigreindar og þörf manneskjunnar fyrir listsköpun.

Nýtir nútímatækni til að skapa

Rayan segir meginhugmyndina á bak við verkefnið vera að sýna hvernig núverandi tækni getur aðstoðað okkur við að vinna úr þeim skapandi hugmyndum sem skjótast upp í kollinn yfir daginn. Fyrir einstaklinga sem skortir tíma til að vinna með listræna sköpunarkrafta sína, þá eru aðrar leiðir í boði sem gerir öllum kleift að skapa.

„Sem dæmi má nefna að ef þú hefur hugmynd að ljósmynd eða listaverki, en skortir tíma til að búa til verkið frá grunni, getur þú notað tæknina. Með gervigreind og nákvæmum hugtökum er hægt að skapa hvað sem þig lystir, allt byggt út frá ímyndunaraflinu.“

Stuttmynd um helgisiði og flóttafólk sem finna sitt annað heimili

Verkefnið felur einnig í sér gerð stuttmyndar sem snýst um helgisiði. En það gengur lengra en að vera bara um helgisiði; myndin er innblásin af hópi flóttafólks frá Venesúela sem hafa fundið sér sitt annað heimili í Hamrinum, hér í Hafnarfirði. Stutmyndin, sem ber nafnið Whisper of the forest, var tekin upp víðsvegar um bæjarlandið, meðal annars við Hvaleyrarvatn og í Hellisgerði.

„Hugmyndin bakvið helgisiðina stafar af vináttu okkar sem eiga uppruna frá mismunandi stöðum í Venesúela, sem áttu aldrei von á að kynnast fyrr en þau hittust í Hafnarfirði.“

Samvinna milli manns og gervigreindar

Rayan segir að í sjónrænni framsetningu verkefnisins, valdi hann meira áberandi hugtök og sjónræna sköpun til að vekja áhuga almennings, sem var gert mögulegt með margra klukkustunda samtali og samvinnu við gervigreind. Þau eru sex sem koma að verkefninu, það er Rayan sem meðal annars leikstýrir og klippir og svo eru vinir hans sem leika í stuttmyndinni.

Hægt er að fylgjast með verkefni Rayan í sumar hér á Instagram Rayan Aboul Hosn (@rayangalal.z) | Instagram, en þar verður einnig hægt að horfa á stiklu fyrir stuttmyndina bráðlega. Lokaverkefnið verður frumsýnt í ungmennahúsi Hamarsins, 23. júlí kl.19.

UM SKAPANDI SUMARSTÖRF 2023

Sumarið 2021 ákvað Hafnarfjarðarbær í samstarfi við Ungmennahús bæjarins, Hamarinn, að endurvekja verkefnið “Skapandi sumarstörf” sem hafði verið starfrækt sumarið 2017. Þá bauðst einstaklingum og hópum á aldrinum 18-23 ára að koma með hugmyndir að skapandi verkefnum í Hafnarfirði. Valdir hópar fengu tækifæri til að starfa við ýmis skapandi verkefni á ýmsum sviðum lista sem einnig myndu lífga upp á mannlífið í bænum, gleðja ferðamenn og íbúa með einum eða öðrum hætti. Starfsfólki Skapandi sumarstarfa, sem rekið er sem hluti af Vinnuskóla Hafnarfjarðar er ætlað að glæða bæinn lífi, gera hann skemmtilegri, fallegri og fjölbreyttari með listrænum og skapandi uppákomum. Verkefnin eru fjölbreytt og höfða til mismunandi aldurshópa og áhugasviða. Klara Ósk Elíasdóttir er verkefnastýra Skapandi sumarstarfa.

Í ár eru níu fjölbreyttir hópar og einstaklingar sem starfa á vegum skapandi sumarstarfa og verða þau kynnt vikulega í sumar.

Ábendingagátt