Skapandi sumarstörf – Reynir & Jun – TÓI stuttmynd

Fréttir

Kvikmyndagerðarmennirnir Reynir Snær Skarphéðinsson og Jun Gunnar Lee vinna á vegum skapandi sumarstarfa í Hafnarfirði, við gerð stuttmyndar sem ber heitið TÓI. Myndin fjallar um ungu stelpuna Árúnu og ævintýralega heimsókn hennar til ömmu sinnar og afa í Hafnarfirði.

Framleiða stuttmynd á vegum skapandi sumarstarfa

Reynir Snær Skarphéðinsson, er ungur kvikmyndagerðarmaður og listunnandi sem gengnir hlutverki leikstjóra og framleiðanda á stuttmyndinni TÓI. Hann lauk nýlega námi sínu úr Borgarholtsskóla af kvikmyndagerðarbraut þar sem að hann leikstýrði stuttmyndinni “Blóðhefnd” sem byggði á 17.aldar víkingasögunni Amlóða-sögu. Frá og með haustinu mun Reynir stunda nám í Kvikmyndafræði við Háskóla Íslands.

Jun Gunnar Lee, nemi í kvikmyndagerð við Listaháskóla Íslands, gegnir hlutverki leikstjóra, handritshöfunds og framleiðanda á stuttmyndinni. Hann lauk námi úr Borgarholtsskóla árið 2022, og hefur síðan þá leikstýrt fjölda stuttmynda. Meðal þeirra má nefna; “Að elta kanínu” sem fékk verðlaun fyrir bestu kvikmyndatöku og bestu tæknilegu útfærslu á KHF hátíðinni, “Móðir, móðir” og “Dauðinn í ljóði” sem kemur út bráðlega.

Ævintýraleg heimsókn í Hafnarfjörðinn

Höfundarnir segja: „Stuttmyndin TÓI er um 12 ára stúlkuna Árúnu og viðburðaríka sumarið hennar þegar hún kynnist tröllinu Tóa. Árún og Tói lenda í ýmis ævintýrum saman og kynnast þar á meðal huldukonu á ferðum sínum.“

FRÍTT INN – Frumsýning í Smárabíó

Stuttmyndin TÓI verður frumsýnd í Smárabíó kl.15:30, miðvikudaginn 4. september. Myndin höfðar til 6 til 12 ára barna, en aðgangur er opinn öllum sem hafa áhuga. Áhugasamir eru beðnir um að skrá mætingu sína hér á facebook.
Hér má fylgjast með á Instagram

Við hvetjum alla til að koma og sjá afrakstur sumarsins á hvíta tjaldinu!

 

UM SKAPANDI SUMARSTÖRF 2024

Sumarið 2021 ákvað Hafnarfjarðarbær í samstarfi við Ungmennahús bæjarins, Hamarinn, að endurvekja verkefnið “Skapandi sumarstörf” sem hafði verið starfrækt sumarið 2017. Þá bauðst einstaklingum og hópum á aldrinum 18-25 ára að koma með hugmyndir að skapandi verkefnum í Hafnarfirði. Valdir hópar fengu tækifæri til að starfa við ýmis skapandi verkefni á ýmsum sviðum lista sem einnig myndu lífga upp á mannlífið í bænum, gleðja ferðamenn og íbúa með einum eða öðrum hætti. Starfsfólki Skapandi sumarstarfa, sem rekið er sem hluti af Vinnuskóla Hafnarfjarðar er ætlað að glæða bæinn lífi, gera hann skemmtilegri, fallegri og fjölbreyttari með listrænum og skapandi uppákomum. Verkefnin eru fjölbreytt og höfða til mismunandi aldurshópa og áhugasviða. Klara Ósk Elíasdóttir er verkefnastýra Skapandi sumarstarfa.

Í ár eru sjö fjölbreyttir hópar og einstaklingar sem starfa á vegum skapandi sumarstarfa og verða þau kynnt vikulega í sumar.

Ábendingagátt