Skapandi sumarstörf – Smári Hannesson – Skáldsaga

Fréttir

Ungi útgefandinn og rithöfundurinn Smári Hannesson vinnur á vegum skapandi sumarstarfa í ár að spennandi skáldsögu. Sagan inniber þrúgandi átök allt í gegn, en fjallar í megindráttum um syndir feðranna, áföll sem ferðast í blóði milli kynslóða og spillingu.

„Ég heiti Smári Hannesson og mitt Skapandi sumarstarf er að skrifa skáldsögu!

Gaf út sína fyrstu bók aðeins 14 ára gamall

„Frá því að ég var sætur lítill snáði hef ég haft stórkostlega ástríðu fyrir skrifum. Ég skrifaði smásögur og kvæði af miklu kappi og fyrr en varði var fyrsta bókin mín gefin út, Afinn sem æfir fimleika. En bókin sem ég vinn að núna fjallar ekki um ömmuna og er heldur ekki framhald af fyrstu bókinni.“

Smári Hannesson við skrifin í sumar.

„Spennusagan Eldar ber nafn með rentu en í henni brenna mikilvæg hús til grunna, eldar geisa í lífi aðalpersónunnar sem hún eltist stöðugt við að slökkva og að sjálfsögðu bera tvær mikilvægar persónur nafnið Eldar. Það mætti segja að ég brenni fyrir þessari sögu!“

„Sagan inniber þrúgandi átök allt í gegn, en fjallar í megindráttum um syndir feðranna, áföll sem ferðast í blóði milli kynslóða og spillingu.“

„Á lokahófi Skapandi sumarstarfa þann 29.júlí mun ég lesa nokkra vel valda kafla upp úr bókinni minni, Eldar, sem og kynna hana í enn meiri smáatriðum fyrir alla áhugasama! Hægt verður að skrá sig á forsölulista bókarinnar, en einnig festa kaup á „Afanum sem æfir fimleika“ og rýna í örfá kvæði eftir mig.“

Við hvetjum ykkur eindregið til að fylgjast með þessum hæfileikaríka unga rithöfundi HÉR á Instagram og hlökkum til að taka vel á móti ykkur í lokahófinu.

UM SKAPANDI SUMARSTÖRF 2025

Sumarið 2021 ákvað Hafnarfjarðarbær í samstarfi við Ungmennahús bæjarins, Hamarinn, að endurvekja verkefnið “Skapandi sumarstörf” sem hafði verið starfrækt sumarið 2017. Þá bauðst einstaklingum og hópum á aldrinum 18-25 ára að koma með hugmyndir að skapandi verkefnum í Hafnarfirði. Valdir hópar fengu tækifæri til að starfa við ýmis skapandi verkefni á ýmsum sviðum lista sem einnig myndu lífga upp á mannlífið í bænum, gleðja ferðamenn og íbúa með einum eða öðrum hætti. Starfsfólki Skapandi sumarstarfa, sem rekið er sem hluti af Vinnuskóla Hafnarfjarðar er ætlað að glæða bæinn lífi, gera hann skemmtilegri, fallegri og fjölbreyttari með listrænum og skapandi uppákomum. Verkefnin eru fjölbreytt og höfða til mismunandi aldurshópa og áhugasviða. Þorbjörg Signý Ágústsson er verkefnastýra Skapandi sumarstarfa.

Í ár eru níu fjölbreytt verkefni sem starfa á vegum skapandi sumarstarfa og verða þau kynnt vikulega í sumar.

Ábendingagátt