Skapandi sumarstörf – Sölvi – Ferðalag um Hafnarfjörð

Fréttir

Listamaðurinn og tölvuleikjahönnuðurinn Sölvi Snær Einarsson starfar á vegum skapandi sumarstarfa í Hafnarfirði, við gerð tölvuleiks sem ber heitið Ferðalag um Hafnarfjörð. Leikurinn fjallar um gaflarann Jónas sem ferðast um Hafnarfjörð og lærir um ýmis kennileiti og áhugaverðar staðreyndir úr sögu fjarðarins.

Gaflari sem ferðast og fræðist um fjörðinn fagra

Tölvuleikurinn Ferðalag um Hafnarfjörð, er hannaður af listamanninum og tölvuleikjahönnuðinum Sölva Snæ Einarssyni, á vegum skapandi sumarstarfa í Hafnarfirði árið 2024.  Leikurinn fjallar um gaflarann Jónas sem ferðast um Hafnarfjörð og lærir um ýmis kennileiti og áhugaverðar staðreyndir úr sögu fjarðarins. Hann þarf dæmis að rökræða við álfa og huldufólk til að halda áfram ferð sinni.

Gestir fá tækifæri til að spreyta sig á nýja tölvuleiknum

Viðburðurinn hefst kl.17, miðvikudaginn 24.júlí, í ungmennahúsi Hamarsins að Suðurgötu 14, með stuttri kynningu frá Sölva og þar á eftir geta gestir spreytt sig á því að spila leikinn. Sá sem fær besta tímann og nær að komast að leiðarenda á ferðalagi sínu um Hafnarfjörð getur átt möguleika á því að vinna gjafabréf á Pylsubarinn í Hafnarfirði.
  • Nánari upplýsingar um viðburðinn má finna hér á Facebook.

Við hvetjum alla áhugasama til að mæta!

 

UM SKAPANDI SUMARSTÖRF 2024

Sumarið 2021 ákvað Hafnarfjarðarbær í samstarfi við Ungmennahús bæjarins, Hamarinn, að endurvekja verkefnið “Skapandi sumarstörf” sem hafði verið starfrækt sumarið 2017. Þá bauðst einstaklingum og hópum á aldrinum 18-25 ára að koma með hugmyndir að skapandi verkefnum í Hafnarfirði. Valdir hópar fengu tækifæri til að starfa við ýmis skapandi verkefni á ýmsum sviðum lista sem einnig myndu lífga upp á mannlífið í bænum, gleðja ferðamenn og íbúa með einum eða öðrum hætti. Starfsfólki Skapandi sumarstarfa, sem rekið er sem hluti af Vinnuskóla Hafnarfjarðar er ætlað að glæða bæinn lífi, gera hann skemmtilegri, fallegri og fjölbreyttari með listrænum og skapandi uppákomum. Verkefnin eru fjölbreytt og höfða til mismunandi aldurshópa og áhugasviða. Klara Ósk Elíasdóttir er verkefnastýra Skapandi sumarstarfa.

Í ár eru sjö fjölbreyttir hópar og einstaklingar sem starfa á vegum skapandi sumarstarfa og verða þau kynnt vikulega í sumar.

Ábendingagátt