Skapandi sumarstörf – Tómas Vigur – Fiðlugleði í Hafnarfirði

Fréttir

Hafnfirski fiðluleikarinn Tómas Vigur Magnússon, vann á vegum skapandi sumarstarfa í ár að Fiðlugleði í Hafnarfirði, samspilsnámskeiði fyrir unga fiðlunemendur á grunn- og miðstigi.

Læra skemmtileg lög og efla samspil, hlustun og tónlistargleði

Fiðlugleði í Hafnarfirði er samspilsnámskeið fyrir unga fiðlunemendur á grunn- og miðstigi. Námskeiðið fór fram dagana 16.–20. júlí 2025 í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og bauð þáttakendum að taka þátt í hóptímum og einkatímum, læra skemmtileg lög og efla samspil, hlustun og tónlistargleði. Á námskeiðinu voru 9 nemendur á aldrinum 8-12 ára. Við lok námskeiðsins var sameiginlegur tónleikaviðburður þar sem afraksturinn var fluttur fyrir gesti.

Hefur spilað sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands

Tómas Vigur Magnússon er fiðluleikari fæddur árið 2005 og er búsettur í Hafnarfirði. Hann hefur verið virkur í íslensku tónlistarlífi bæði sem fiðlu- og píanóleikari. Tómas hefur spilað sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands eftir að hafa verið einn af sigurvegurum Ungra Einleikara 2024 og með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna 2023.

Leiðin liggur til Osló

Tómas hóf fiðlunám hjá Diljá Sigursveinsdóttur en hefur síðustu ár verið að læra hjá Auði Hafsteinsdóttur, bæði í Tónskóla Sigursveins og svo við Listaháskóla Íslands. Í haust flytur hann til Osló þar sem hann mun hefja bachelor-nám við Norwegian Academy of Music undir handleiðslu Peter Herresthal. Tómas hefur sótt masterclassa og alþjóðleg námskeið víða, meðal annars hjá Maestro Dmitry Sitkovetsky, dómara í mörgum stærstu fiðlukeppnum heims og á námskeiðum eins og Valdres, Astona, Malta International Spring Festival, Schlossakademie og nú síðast Jacob Gade í Danmörku.

Fiðlugleði í Hafnarfirði mögulega til næstu ára

Árið 2024–2025 kenndi Tómas á fiðlu við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar í Reykjavík.
Fiðlugleði í Hafnarfirði er námskeið sem að Tómasi þætti ánægjulegt að þróa og halda áfram með til næstu ára.

Tónleikar 29.júlí

Við hvetjum ykkur eindregið til að fylgjast með þessum hæfileikaríka hljóðfæraleikara og verkefninu HÉR á Facebook og hlökkum til að taka vel á móti ykkur í lokahófinu þann 29.júlí í Nýsköpunarsetrinu. Þar mun Tómas slá á létta strengi og ljúka dagskrá dagsins með nokkrum vel völdum lögum. Öll velkomin!

Hér má sjá nokkar vel valdar myndir frá námskeiðinu og lokatónleikum Fiðlugleði í Hafnarfirði árið 2025.

UM SKAPANDI SUMARSTÖRF 2025

Sumarið 2021 ákvað Hafnarfjarðarbær í samstarfi við Ungmennahús bæjarins, Hamarinn, að endurvekja verkefnið “Skapandi sumarstörf” sem hafði verið starfrækt sumarið 2017. Þá bauðst einstaklingum og hópum á aldrinum 18-25 ára að koma með hugmyndir að skapandi verkefnum í Hafnarfirði. Valdir hópar fengu tækifæri til að starfa við ýmis skapandi verkefni á ýmsum sviðum lista sem einnig myndu lífga upp á mannlífið í bænum, gleðja ferðamenn og íbúa með einum eða öðrum hætti. Starfsfólki Skapandi sumarstarfa, sem rekið er sem hluti af Vinnuskóla Hafnarfjarðar er ætlað að glæða bæinn lífi, gera hann skemmtilegri, fallegri og fjölbreyttari með listrænum og skapandi uppákomum. Verkefnin eru fjölbreytt og höfða til mismunandi aldurshópa og áhugasviða. Þorbjörg Signý Ágústsson er verkefnastýra Skapandi sumarstarfa.

Í ár eru níu fjölbreytt verkefni sem starfa á vegum skapandi sumarstarfa og verða þau kynnt vikulega í sumar.

Ábendingagátt