Skapandi sumarstörf – Víf

Fréttir

Víf Ásdísar Svansbur vinnur á vegum skapandi sumarstarfa í ár við að semja tónlist, ljóð og að taka ljósmyndir með innblæstri frá Hafnfirsku náttúrunni.

„Ég er 19, að verða 20 ára kynsegin Hafnfirðinga menntaskælingur með mikinn áhuga á list og hef verið að spila í nokkrum hljómsveitunum síðasta árið, Ókindarhjarta, sem gaf frá sér stuttskífu í apríl, og Samosa, sem spilaði sínu fyrstu tónleika um daginn.„

Byrjaði að semja sína eigin tónlist fyrir tveimur árum

„Ég hef annars verið að spila á gítar ásamt öðrum hljóðfærum í rúm sjö ár, en byrjaði að semja mína eigin tónlist heimanfrá fyrir u.þ.b tveimur árum með “ instrumental “ upptökum. Ég dreg mikinn innblástur frá Sigur Rós, Neutral Milk Hotel, Sonic Youth, Slowdive, R.E.M, Belle & Sebastian, Simon & Garfunkel og Nick Drake.“

Innblástur frá upplandi Hafnarfjarðar

Í sumar mun ég einblína á tónlistina, en ég mun einnig semja ljóð og taka myndir í Hafnarfirði. Ég dreg innblástur úr hjóla eða gönguferðum um Hafnarfjörðinn, meðal annars í kringum Hvaleyravatn og Helgafell.“

Skemmtilegt starf

„Ég sótti um hjá skapandi sumarstörfum þar sem ég leit á tækifærið sem stökkpall til að gefa út mitt eigið efni seinna meir. Starfið er mjög fjölbreytt og skemmtilegt og ég nýt þess mikið. Með þessu verkefni í sumar hef ég sérstaklega verið að reyna að þroska lagasmiðjuna mína með lögum sem fylgja betur hefðbundnum strúktúr.“

Ljóð eftir Víf

Fætur votir

Hlaupí snjó

Organdi hótel

Undan mér rís friður

-Víf Ásdísar Svansbur

Fimmtudaginn 27. júlí mun Víf frumsýna verk sumarsins í ungmennahúsi Hamarsins, sem ber nafnið; Lög, ljóð og ljósmyndun.

Hér má fylgja Víf á Instagram Víf🌻 (@rusticolusvif) • Instagram photos and videos

 

UM SKAPANDI SUMARSTÖRF 2023

Sumarið 2021 ákvað Hafnarfjarðarbær í samstarfi við Ungmennahús bæjarins, Hamarinn, að endurvekja verkefnið “Skapandi sumarstörf” sem hafði verið starfrækt sumarið 2017. Þá bauðst einstaklingum og hópum á aldrinum 18-23 ára að koma með hugmyndir að skapandi verkefnum í Hafnarfirði. Valdir hópar fengu tækifæri til að starfa við ýmis skapandi verkefni á ýmsum sviðum lista sem einnig myndu lífga upp á mannlífið í bænum, gleðja ferðamenn og íbúa með einum eða öðrum hætti. Starfsfólki Skapandi sumarstarfa, sem rekið er sem hluti af Vinnuskóla Hafnarfjarðar er ætlað að glæða bæinn lífi, gera hann skemmtilegri, fallegri og fjölbreyttari með listrænum og skapandi uppákomum. Verkefnin eru fjölbreytt og höfða til mismunandi aldurshópa og áhugasviða. Klara Ósk Elíasdóttir er verkefnastýra Skapandi sumarstarfa.

Í ár eru níu fjölbreyttir hópar og einstaklingar sem starfa á vegum skapandi sumarstarfa og verða þau kynnt vikulega í sumar.

Ábendingagátt