Skapandi tilgangur með tækni

Fréttir

Leikskólar í Hafnarfirði halda Dag leikskólans hátíðlegan m.a. með formlegri opnun og kynningu á nýrri heimasíðu. Markmið er að vekja athygli á skapandi notkun spjaldtölva í skólastarfi.  

Leikskólar í Hafnarfirði halda Dag leikskólans hátíðlegan
m.a. með formlegri opnun og kynningu á nýrri heimasíðu sem hefur að geyma
myndbönd og upplýsingar um skapandi verkefni sem leikskólar í Hafnarfirði hafa
verið að vinna að á síðustu misserum. Markmið með síðunni er sér í lagi að
vekja athygli á skapandi notkun spjaldtölva í skólastarfi. 
 

Hafnarfjarðarbær
hefur gert það að markmiðið sínu að spjaldtölvuvæða alla leikskóla og grunnskóla
bæjarins á næstu árum. Slík innleiðing tekur tíma í undirbúningi og framkvæmd
og veltur árangur við innleiðingu á hverjum stað fyrir sig töluvert á áhuga og
færni þeirra sem stýra innleiðingunni. Notkun spjaldtölva í skólastarfi hefur
farið vel af stað í leikskólum Hafnarfjarðar. Flestir þeirra eru farnir að nýta
tæknina markvisst í sínu starfi og vilja þannig efla nám
barna með því að leyfa þeim að prófa og upplifa hluti á sem fjölbreyttastan
máta. Verið er að vinna með leiðir og lausnir sem styðja jákvætt við nám
barnanna og spila í takt við hugmyndafræði og markmið leikskólanna og stefnu
sveitarfélagsins. Yfirlýst námssvið leikskóla samkvæmt aðalnámskrá eru læsi og
samskipti, heilbrigði og vellíðan, sjálfbærni og vísindi og sköpun og menning.
Á nýju heimasíðunni er að finna dæmi um tæknilegar leiðir og aðferðir sem hægt
er að nýta til að vinna með á hverju sviði fyrir sig. Börnin eru hvött til þess
að deila skoðunum sínum og hugmyndum, segja sögur eða upplifanir í upptöku eða
með ljósmyndum. Þau semja og gera leikrit og kallar þetta allt á samvinnu,
hugmyndavinnu og það að börnin tjái sig og hugsanir sínar.

Gullkorn frá ömmu barns í Leikskólanum Álfabergi:

,,Barnabarnið
mitt sem er 5 ára kom til mín og spurði hvar spjaldtölvan væri. Eftir smá stund
fer ég að kíkja á dömuna og þá var hún búin að ná í spjaldtölvuna og finna sér
stærðfræðiforrit til að sjá hvernig hún ætti að skrifa tölustafi. Hún væri að
búa til leik og þyrfti að vita hvernig eigi að skrifa tölustafina á blaðið.
Daman var búin að ná sér í blöð, liti, skæri og spjaldtölvuna og farin að
skrifa fullt af tölustöfum til að búa til leikinn sinn.  Það var svo gaman að sjá og upplifa þessa
tengingu hjá henni, að spjaldtölvan er ekki bara afþreyingartæki til að leika
sér í leikjum heldur getur hún verið hjálpartæki og aðstoðað þegar við þurfum
upplýsingar”

Dagur leikskólans

Það þótti
viðeigandi að nota Dag leikskólans til að opna formlega þessa nýju og
sameiginlegu upplýsingasíðu leikskólanna í Hafnarfirði og vekja þannig athygli
á þeirri tæknilegu og fjölbreyttu aðferðafræði sem er að eiga sér stað í
skólastarfinu. Dagurinn er haldinn hátíðlegur um allt
land og eru leikskólar á þessum degi hvattir til að vekja sérstaka athygli á
því mikilvæga starfi sem er að eiga sér stað innan veggja leikskólanna. Um er
að ræða merkisdag í íslenskri leikskólasögu því á þessum degi árið 1950
stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara sín fyrstu samtök. Til hamingju með
daginn!

Ábendingagátt