Skarðshlíðarskóli fær styrk frá Forriturum framtíðar

Fréttir

Forritarar framtíðarinnar hafa nú lokið úthlutun styrkja fyrir þetta ár og hlutu 29 grunnskólar styrki sem nema 9 milljónum króna. Skarðshlíðarskóli er einn þeirra skóla sem fékk styrk sem mun verða nýttur til kaupa á Lego WeDo með það að markmiði að kenna nemendum undirstöðuatriði í forritun og auka tæknilæsi þeirra. 

Forritarar framtíðarinnar hafa nú lokið úthlutun styrkja fyrir þetta ár og hlutu 29 grunnskólar styrki sem nema 9 milljónum króna. 1,5 milljón rann til námskeiða innan skólanna en 7,5 milljónir til kaupa á smærri tækjum í forritunar og tæknikennslu ásamt úthlutun á notuðum tölvubúnaði. Skarðshlíðarskóli í Hafnarfirði er einn þeirra skóla sem fékk styrk og mun styrkurinn verða nýttur til kaupa á Lego WeDo með það að markmiði að kenna nemendum undirstöðuatriði í forritun og auka tæknilæsi þeirra. 

Ljóst er að þörfin á stuðningi á þessu sviði er mikil en í ár var sótt um styrki sem í heild nema yfir 40 milljónum króna og ekki var hægt að veita öllum styrk sem sóttu um. Mestur áhugi var fyrir því að fá styrki til kaupa á minni tækjum en einnig er mikið sótt um styrki fyrir námskeið og notaðan tölvubúnað. Hægt var að sækja um í eftirfarandi flokkum:

  • Námskeiðsstyrk fyrir kennara til forritunar- og tæknikennslu
  • Tölvubúnað; notaðar borðvélar, skjáir, mýs og lyklaborð sem eru yfirfarnar af kerfisstjórum hollvina FF
  • Styrk til námsefnisgerðar í forritunar- og tæknikennslu
  • Styrk til kaupa á minni tækjum í forritunar- og tæknikennslu (ekki tölvur)


Skólarnir sem fengu styrk í ár eru:
Álftanesskóli, Bíldudalsskóli, Dalvíkurskóli, Egilsstaðaskóli, Flataskóli, Flúðaskóli, Foldaskóli, Giljaskóli, Grenivíkurskóli, Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar, Grunnskóli Grundarfjarðar, Grunnskólinn í Stykkishólmi, Háaleitisskóli, Hlíðaskóli, Höfðaskóli, Kársnesskóli, Landakotsskóli, Laugarnesskóli, Myllubakkaskóli, Norðlingaskóli, Njarðvíkurskóli, Sjálandsskóli, Skarðshlíðarskóli, Tálknafjarðarskóli, Valsárskóli, Varmahlíðarskóli, Vesturbæjarskóli, Víkurskóli og Vogaskóli.

Forritarar framtíðarinnar er sjóður sem stofnaður var 2014 með þann tilgang að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Hollvinir sjóðsins í ár eru RB, Landsbankinn, CCP, Össur, Íslandsbanki og Webmo design. Vitað er að mikil þörf er á sjóðnum til að tengja saman viðskiptalífið, menntastofnanir og aðra hagsmunaaðila með það að leiðarljósi að sem flest ungmenni öðlist þá grunnhæfni sem til þarf til að verða forritarar framtíðarinnar.

Sjá tilkynningu á vef Forritara framtíðarinnar

Ábendingagátt