UPPFÆRT: Skert þjónusta vegna ofsaveðurs

Fréttir

Mikilvægt er að fólk haldi sig heima meðan verið er að ryðja vegi. Reglulegt skóla- og frístundastarf fellur niður. Sundlaugar og söfn opna kl. 12. Sama á við um þjónustuver og þjónustumiðstöð en símsvörun hefst á báðum stöðum kl. 8. Búast má við einhverri skerðingu á þjónustu fjölskyldu- og barnamálasviðs. 

UPPFÆRT kl. 09.30 mánudaginn 7. febrúar 

Það snjóaði ekki eins mikið á höfuðborgarsvæðinu í nótt eins og búist var við þar sem hiti var nokkuð yfir frostmarki. Þess vegna eru flestar stofnæðar og tengibrautir færar og einnig fjölmargar íbúðargötur. Unnið verður fram eftir morgni að ryðja íbúðargötur sem eru ekki færar og á það helst við í efri byggðum og jafnvel víða. Þeir sem ætla á bílum sínum eru beðnir um að meta búnað bílsins og færðina þar sem þeir búa og alls ekki að ana af stað ef ófærð er mikil.  

Förum varlega og munum eftir að skafa vel og hafa öll ljós kveikt!

  • Opnað verður fyrir skólahald í leikskóla, frístund, tónlistarskóla og félagsmiðstöð kl. 13
  • Símsvörun bæjarins hófst kl. 8
  • Þjónustuver og þjónustumiðstöð hafa opnað
  • Sundlaugar og íþróttamannvirki opna kl. 12
  • Bókasafn og Hafnarborg opna kl. 12
  • Búast má við einhverri skerðingu á heimaþjónustu
  • Seinkun er á opnun vinnustaða fatlaðs fólks
  • Röskun á ferðaþjónustu fatlaðs fólks

————————————————

Rauð viðvörun á höfuðborgarsvæðinu mánudaginn
7.febrúar

Rauð veðurviðvörun hefur verið gefin út fyrir
höfuðborgarsvæðið 7. febrúar sem þýðir að fólk á ekki að vera á ferðinni nema
brýna nauðsyn beri til. Þó svo veður verði skaplegt á morgun og veðurviðvaranir
ekki til staðar, þá mun færð spillast og er mikilvægt að fólk haldi sig heima
meðan verið er að ryðja vegi og fólk fylgist vel með upplýsingum, en það er
tímafrekt að ryðja húsgötur. Uppfærðar upplýsingar er að finna á vef Veðurstofunnar 

Skólahald

Reglulegt skóla- og frístundastarf fellur niður en
leikskólar og grunnskólar verða engu að síður opnir með lágmarksmönnun fyrir
fólk sem þarf nauðsynlega á vistun fyrir börn sín að halda – það er fólk sem
sinnir neyðarþjónustu, löggæslu, slökkvistörfum og björgunarsveitarútköllum.

Sundlaugar og íþróttamannvirki

Sundlaugar og íþróttamannvirki verða lokuð til kl. 12. 

Menningarstofnanir

Bókasafn Hafnarfjarðar og Hafnarborg opnuð kl. 12 í stað
hefðbundins opnunartíma.

Velferðarþjónusta

Búast má við einhverjum skerðingum á þjónustu fjölskyldu- og
barnamálasviðs á morgun. Heimaþjónusta getur mögulega ekki hafist fyrr en í
hádeginu og í einhverjum tilfellum fellur hún niður. Seinkun verður á opnun vinnustaða
fatlaðs fólks og röskun á ferðaþjónustu þeirra. Á heimilum fatlaðs fólks getur
verið að vaktaskipti verði síðar og vaktir lengri en vanalega. Forstöðumenn
upplýsa starfsfólk um það.

Ráðhús Hafnarfjarðar, þjónustuver og þjónustumiðstöð

Ráðhús Hafnarfjarðar, þjónustuver og þjónustumiðstöð opna
kl. 12. Símsvörun hefst kl. 8.00 á báðum stöðum eins og vanalega. Starfsfólk
þjónustumiðstöðvar og verktakar mæta á vaktina í nótt og verða við öllu búnir. Hafist verður handa við mokstur og hreinsun um leið og veður leyfir. 

Ábendingagátt