Skipulagshönnuðir óskast

Fréttir

Hafnarfjarðarbær leitar eftir skipulagshönnuðum vegna fyrirhugaðrar enduruppbyggingar í vestur hluta Hraunanna í Hafnarfirði, svæðis sem afmarkast af Fjarðarhrauni til austurs, Reykjavíkurvegi til vesturs og Flatahrauni til suðurs.

Iðnaðarsvæði í vestur Hraunum í Hafnarfirði

Hafnarfjarðarbær leitar eftir skipulagshönnuðum vegna fyrirhugaðrar enduruppbyggingar í vestur hluta Hraunanna í Hafnarfirði, svæðis sem afmarkast af Fjarðarhrauni til austurs, Reykjavíkurvegi til vesturs og Flatahrauni til suðurs.

Þróun og heildaruppbygging svæðis

Óskað er eftir hugmyndum að þróun og heildaruppbyggingu svæðis þar sem því er breytt úr athafnasvæði í blandaða byggð með þéttingu. Meginmarkmið er að auka gæði umhverfis, stuðla að betri nýtingu landsvæðis með auknu byggingarmagni og auka fjölbreytni í nýtingu þess, m.a. með íbúðabyggð. Til hliðsjónar skal hafa samþykkt rammaskipulag svæðis frá 2008 og skipulagslýsingu fyrir nýtt deiliskipulag fyrir Hraunin – vestur, dagsett í júní 2016.

Skilyrði um hæfni

Úr hópi umsækjenda verða valdir 3 – 5 aðilar, sem uppfylla lágmarkskröfur um hæfni. Krafa er um að aðilar hafi lokið meistaranámi í arkitektúr, skipulagsfræði eða sambærilegu og hafi reynslu af skipulagsgerð við áþekkt verkefni og því sem hér um ræðir. Jafnframt hafi umsækjandi löggildingu skv. 25. og 26. gr. Mannvirkjalaga nr. 160/2010. Ef um hóp er að ræða skal a.m.k. einn úr hópnum uppfylla framangreind skilyrði. Allir umsækjendur sem uppfylla hæfniskröfur koma til greina og verður dregið um þátttöku þeirra. Þátttakendur fá greitt fyrir tillögur sínar kr. 1.500.000.- auk vsk. Hafnarfjarðarbær áskilur sér rétt til að nýta hverja tillögu að hluta eða í heild. Áframhaldandi skipulagsvinna á svæði verður ekki bundin við þátttakendur.

Umsóknarfrestur og gögn til afhendingar

Umsóknarfrestur er til 27. júní 2016. Reiknað er með að niðurstaða um val á þátttakendum liggi fyrir viku síðar og að strax í kjölfar þess hefjist vinna við tillögugerð. Tillögum skal skilað 15. september 2016 á 4 spjöldum af stærðinni A1 ásamt greinargerð til umhverfis- og skipulagsþjónustu Hafnarfjarðarbæjar, Norðurhellu 2, 221 Hafnarfirði.

Þátttakendum verða útveguð eftirtalin gögn:

 

  • Hraunin – rammaskipulag Hafnarfirði 2008
  • Skipulagslýsing – fyrir iðnaðarsvæði í Hraunum – vestur
  • Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2013-2025 ásamt greinargerð
  • Deiliskipulagsáætlanir á svæði og á aðliggjandi svæðum
  • Stafrænn kortagrunnur ásamt loftmynd af svæði

 

Auk þess er bent á  lög og reglugerðir sem varða skipulag, mannvirki og umhverfi.

Umsækjendur skulu senda upplýsingar og gögn, sem sýna fram á að hæfniskröfum sé mætt til Þormóðs Sveinssonar, skipulagsfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar (thormodurs@hafnarfjordur.is) í síðasta lagi 27. júní 2016.

Ábendingagátt