Skólaárið 2023 – 2024 er hafið í Hafnarfirði

Fréttir

Skólasetning í grunnskólum Hafnarfjarðar fór fram í morgun og hefst formlegt skólastarf nemenda samkvæmt stundaskrá á morgun. Starfsfólk Lækjarskóla fór heldur óhefðbundna leið í sinni skólasetningu sem fór fram utandyra.

Rúmlega 4000 börn og ungmenni setjast á skólabekk

Skólasetning í grunnskólum Hafnarfjarðar fór fram í morgun og hefst formlegt skólastarf nemenda samkvæmt stundaskrá á morgun fimmtudaginn 24. ágúst. Rúmlega 4.000 börn og ungmenni setjast á skólabekk þetta haustið í grunnskólunum og þar af eru tæplega 400 börn að hefja sína grunnskólagöngu. Í Hafnarfirði eru 11 grunnskólar, 9 reknir af Hafnarfjarðarbæ en Barnaskóli Hjallastefnunnar og NÚ eru sjálfstætt starfandi.

Veðrið lék við viðstadda á skólasetningu Lækjarskóla

Starfsfólk Lækjarskóla fór heldur óhefðbundna leið í sinni skólasetningu og treysti á veðurguðina við setninguna í morgunsárið. Allir nemendur, foreldrar, forsjáraðilar og starfsfólk voru boðuð til skólasetningar á skólalóðinni kl. 9 og var skólaárið 2023-2024 sett utandyra þetta árið í faðmi alls skólasamfélagsins.

Umgjörð skólasetningar var hin hátíðlegasta og á stokk sigu meðal annars skólastjóri og listafólk í skólanum. Veðrið lék við viðstadda og svo virðist sem glaðbeitt börn og ungmenni bíði spennt eftir komandi skólaári. Þar fara líkast til fremstir í spenningi sjálfir fyrstu bekkingar sem kvöddu leikskólann sinn í sumar og upplifa nú líf og starf á nýju skólastigi.

Allar upplýsingar um grunnskóla Hafnarfjarðar

Ábendingagátt