Skólabyrjun 2017

Fréttir

Nemendum fjölgar örlítið í grunnskólum Hafnarfjarðar en formlegt skólastarf hófst í dag.

Formlegt skólastarf nemenda í grunnskólum Hafnarfjarðar hófst í dag. Rétt rúmlega 4.000 börn setjast á skólabekk þetta haustið, og af þeim 95 börn sem hefja nám í nýjum Skarðshlíðarskóla. Skarðshlíðarskóli mun í vetur verða starfræktur í safnaðarheimili Ástjarnarkirkju. Skóflustunga að húsnæði skólans var tekin í gær, 21. ágúst og mun skólastarf hefjast í nýjum skóla í Skarðshlíð haustið 2018.

Rúmlega 400 börn eru að hefja nám í 1. bekk en um 350 nemendur luku 10. bekk síðasta vor svo nemendum í grunnskólunum fjölgar örlítið. Fjölgunin frá fyrra ári verður nálægt 100 nemendum en hve hún nákvæmlega verður ekki vitað fyrr en aðeins líður á haustið.

Að byrja í grunnskóla er stórt skref í lífi hvers barns og við slík tímamót er samstarf heimilis og skóla afar mikilvægt.  Síðar í haust munu foreldrar 1. bekkinga fá sérstakan bækling um upphaf grunnskólagöngunnar.

Allar heimasíður skólanna gefa góðar upplýsingar um starf og áherslur skólanna og er áhugavert að gefa sér tíma til að líta á það með barninu. Heimasíður grunnskólanna:

 

 

Hafnarfjarðarbær útvegar nú grunnskólanemendum námsgögn þeim að kostnaðarlausu. Skólar munu því kaupa ritföng sem nemendur þurfa að nota í skólastarfinu. Þannig munu nemendur fá stílabækur, skriffæri, möppur og annað slíkt sem þeir þurfa á að halda í daglegu skólastarfi til viðbótar við námsbækur sem hafa ávallt verið nemendum að kostnaðarlausu.

Ábendingagátt