Skólamálin áhugaverðust

Fréttir

Ungmennaþing er vettvangur fyrir unga fólkið í Hafnarfirði til að ræða sín málefni. Mestur áhugi reyndist vera á skólamálum  og sköpuðust fjölbreyttar og skemmtilegar umræður milli þeirra 60-70 ungmenna sem mættu á þingið.

Ungmennaráð Hafnarfjarðar ásamt starfsmönnum
félagsmiðstöðvarinnar Vitans stóðu fyrir Ungmennaþingi þriðjudaginn 15. mars sl.
í Lækjarskóla. Þingið, sem var öllum unglingum á aldrinum 13-18 ára opið, var
ætlað að gefa tækifæri til þess að ræða málefni ungs fólks í Hafnarfirði. 

Bæjarstjórinn, Haraldur L. Haraldsson setti þingið. Fulltrúar Ungmennaráðs
Hafnarfjarðar, þær Lára Rós Friðriksdóttir og Ína
Kathinka Grönvold Steinþórsdóttir, héldu einnig ræðu ásamt kynningu
á fyrirkomulagi Ungmennaþings. Í upphafi þings var í boði að skrá niður
hugmyndir á veggspjöld sem hengu uppi. Fjórir málaflokkar voru til umræðu:

  • Umhverfi og skipulag – hópstjórar: Bryndís Björk og Egill
  • Skólamál – hópstjórar: Katrín Rós
    og Bjarki Steinar
  • Félagslíf og menning – hópstjórar: Breki og Eva
  • Forvarnir – hópstjórar: Lára Rós og Ína Kathinka

Fulltrúar í Ungmennaráði sáu um að stýra umræðum ásamt því að skrá niður helstu niðurstöður. Þar sem unga fólkinu var frjálst að
velja sér hóp þá virtist mestur áhugi vera á skólamálum. Fjölbreyttar
og skemmtilegar umræður mynduðust og er greinilegt að unga fólkið í
sveitarfélaginu er tilbúið að láta til sín taka. Á þingið mættu um 60-70
ungmenni. Niðurstöður þingsins verða svo kynntar fyrir bæjarfulltrúum snemma í sumar.

Ungmennaráð Hafnarfjarðar skipa þau: Eva Rut,
Breki Dagur, Bjarki Steinar, Katrín Rós, Lára Rós, Adam Ingi, Gunnar, Egill,
Ína Kathinka, Veiga Dís, Viktor, Tinna, Kristinn Óli, Arna Kristín, Fjóla Dögg
og Bryndís Björk

Ábendingagátt