Skref til að efla verslun í miðbænum – já og okkur sjálf!

Fréttir

Nú stendur yfir tónlistarveisla í hjarta Hafnarfjarðar. Bílastæði fyrir aftan Ráðhúsið & Bæjarbíó verður að mestu frátekið fyrir hátíðina. Við sem vinnum hér í miðbænum getum eflt verslun og þjónustu með því að leggja fjær. Víða má finna bílastæði í stuttri göngufjarlægð.

Leggjum lengra frá og leyfum viðskiptavinum að nýta stæðin næst miðbænum

Nú stendur yfir tónlistarveisla í hjarta Hafnarfjarðar. Þúsundir gesta heimsækja bæinn hverja helgi. Þessar vikur sem veislan stendur yfir verður bílastæði fyrir aftan Ráðhúsið & Bæjarbíó að mestu frátekið fyrir hátíðina. Af virðingu við verslanir, veitingastaði og aðra þjónustuaðila í miðbænum hvetjum við allt það starfsfólk sem vinnur hér í miðbænum eindregið til að leggja bílum sínum lengra í burtu, rölta í vinnuna og leggja sitt af mörkum við að ýta undir blómstrandi viðskipti í blómstrandi bæ. Nær þessi hvatning líka til bílastæða við Strandgötu og Linnetstíg sem öll eru skammtímastæði (30-60mín).

Já, nú er að stíga skrefið að betri heilsu, vænlegri verslun og frábærri þjónustu.

Laufléttir möguleikar í næsta nágrenni:

  • 1100 m eða 16 mínútur: Bílastæði við Flensborgarskólann
  • 850 metrar eða 15 mínútur: Bílastæði við Fimleikafélagið Björk
  • 850 metrar eða 15 mínútur: Bílastæði við Lækjarskóla
  • 750 metrar eða 15 mínútur: Bílastæði við skólann Nú – Reykjavíkurvegi
  • 700 metrar eða 15 mínútur: Bílastæði við Víðistaðaskóla
  • 400 metrar eða 6 mínútur: Bílastæði við Hafnarfjarðarkirkju og Tónlistarskóla
  • 350 metrar eða 7 mínútur: Bílastæði við Menntasetrið við Lækinn

Drögum djúpt andann og leyfum okkur að ganga smá í upphafi dags!

Ábendingagátt