Skúrað | Skrúbbað | Bónað

Fréttir

Þakkir til allra. Hátt í sjötíu starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar settu upp hanska, tóku sér kúst og poka í hönd og vörðu góðum tíma við hreinsunarstörf. Þetta framtak er liður í hreinsunarátaki Hafnarfjarðarbæjar dagana 2. – 16. maí.

Hátt í sjötíu starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar settu upp hanska, tóku sér kúst og poka í hönd og vörðu góðum tíma við hreinsunarstörf í miðbæ Hafnarfjarðar, við Reykjavíkurveg, Strandstíg og tónlistarskóla í vikunni. Stór hópur var einnig við hreinsunarstörf á Völlum á svæði við og kringum Norðurhellu. Þetta framtak er liður í hreinsunarátaki Hafnarfjarðarbæjar dagana 2. – 16. maí þar sem allir íbúar, nemendur allra skólastiga og starfsmenn fyrirtækja og stofnana hafa verið hvattir til að taka virkan þátt.

„Skúra burtu skítinn, svo einhver vilji lít’inn“    

Árvisst hreinsunarátak í Hafnarfirði hefur staðið yfir dagana 2. – 16. maí. Þessa daga hafa bæjarstarfsmenn verið á fullu við hreinsun víðsvegar um Hafnarfjörð og samhliða skorað á íbúa og starfsmenn fyrirtækja og stofnana í Firðinum að taka virkan þátt með því að huga að hreinsun innan sinna lóðarmarka og í sínu nánasta umhverfi. Þannig hafa leikskólar og grunnskólar í Hafnarfirði skipulagt sína eigin hreinsunardaga þar sem allir nemendur og kennarar hafa fengið það hlutverk að hreinsa ákveðin svæði bæði innan lóðar og helsta nærumhverfi.  Í gær tóku skapandi listamenn í Íshúsi Hafnafjarðar og við Fornubúðir á Flensborgarhöfn sig til og hreinsuðu til í fjöru og við bryggju. Hreinsunarafrekum var svo fagnað í hollustusúpu í boði Hafnarfjarðarbæjar þar sem bæjarstjóri og bæjarfulltrúar tóku vel á móti gestum og gangandi við Ásvallalaug. Í auknu mæli eru innlendir og erlendir ferðamenn farnir að sækja bæinn heim og mun umferð þeirra aukast á komandi misserum. Sjö nýjar verslanir hafa opnað í Firði verslunarmiðstöð á síðustu vikum auk þess sem fjöldi nýrra og fjölbreyttra veitingastaða og kaffihúsa hefur verið og er að líta dagsins ljós þessa dagana. Það stefnir allt í lifandi og skemmtilegt sumar í Hafnarfirði og er það ósk allra að hreinn og fínn Fjörður mæti íbúum og gestum. 

Bæjarstjóri og starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar senda íbúum, nemendum á öllum skólastigum og starfsmönnum fyrirtækja og stofnana í bænum þakklætiskveðjur fyrir framlag í þágu hreinsunarmála í Hafnarfirði. Hugurinn ber okkur hálfa leið en samvinnan alla.

TAKK!

Ábendingagátt