Slöbbum saman 15. janúar – 15. febrúar

Fréttir

Slöbbum saman er verkefni Landlæknisembættis, ÍSÍ, UMFÍ, Heilsueflandi samfélags og Sýn sem miðar að því að fá fólk til að hreyfa sig

Slabbaðu með hundinum. Slabbaðu með fjöllunni. Slabbaðu með mömmu og pabba. Slabbaðu með vinum. Manaðu vinahópinn eða vinnufélagana í slabbaða skrefakeppni!

Slöbbum saman er verkefni Landlæknisembættis, ÍSÍ, UMFÍ, Heilsueflandi samfélags og Sýn fara nú af stað með og miðar að því að fá fólk til að hreyfa sig. Heilsubærinn Hafnarfjörður tekur að sjálfsögðu virkan þátt og hvetur Hafnfirðinga og vini Hafnarfjarðar til að labba í slabbi og njóta þess. 

Fátt skilar jafn góðum árangri fyrir líkama og sál og hreyfing og létt hreyfing er eitthvað sem við flest getum gert. Íbúar og allir áhugasamir eru hvattir til að fara út og labba en þar sem færðin vinnur ekki alltaf með okkur á þessum árstíma höfum við húmorinn með og ætlum því að SLABBA saman, labba í slabbi. Nú er um að gera að fara út með vinunum, fjölskyldunni, saumaklúbbnum eða vinnufélögunum og slabba saman og efla líkama og sál.

Hafnarfjarðarbær býður upp á hafsjó af möguleikum til útivistar, hreyfingar og skemmtunar. Útivistarsvæðin eru fjölbreytt að gerð þannig að allir geta fundið vettvang til útivistar við sitt hæfi. Svo er tilvalið að skella sér í sund á eftir!  

Hvernig tek ég þátt?

Hægt er að skrá sig á visir.is/slobbumsaman eða deila myndum á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #slobbumsaman. Einu sinni í viku er dregið úr skráningum og merktum myndum og viðkomandi fær skemmtilegan glaðning. Hoppaðu í stígvélin, reimdu á þig skóna, settu hnakkinn á og slabbaðu af stað. Ekki gleyma snjallsímanum/úrinu og fylgstu með árangrinum. Árangursmæling eykur gleðina hjá sumum! 

Ábendingagátt