Smáralundur hástökkvari Hafnarfjarðarbæjar

Fréttir

Um 200 starfsmenn á níu starfsstöðum Hafnarfjarðarbæjar tóku virkan þátt í vinnustaðakeppni Lífshlaupsins 2023 og skráðu samanlagt 1.917 daga í hreyfingu. Leikskólinn Smáralundur er hástökkvari Hafnarfjarðarbæjar með 1. sætið í innanhúskeppni sveitarfélagsins og 10. sætið á landsvísu í sínum flokki.

1. sætið í innanhússkeppni Lífshlaupsins og 10. sætið á landsvísu

Um 200 starfsmenn á níu starfsstöðum Hafnarfjarðarbæjar tóku virkan þátt í vinnustaðakeppni Lífshlaupsins 2023 og skráðu samanlagt 1.917 daga í hreyfingu. Í vinnustaðakeppninni er keppt í sjö flokkum eftir fjölda starfsmanna á starfsstað og stendur keppnin yfir í 3 vikur eða frá 1. – 21. febrúar. Leikskólinn Smáralundur er hástökkvari Hafnarfjarðarbæjar með 1. sætið í innanhúskeppni sveitarfélagsins og 10. sætið á landsvísu í sínum flokki með 95% þátttöku starfsfólks og flesta daga í hreyfingu á hvern starfsmann.

Vel gert Smáralundur!

Lífshlaupið er orðið að vinnustaðamenningu á mörgum þeim stöðum sem skara fram úr ár eftir ár og starfsstaðir duglegir að skapa sínar eigin innanhúshefðir í kringum Lífshlaupið. Þar er heilsueflandi leikskólinn Smáralundur engin undantekning og starfsmannahópurinn þekktur fyrir annálað keppnisskap og metnað sem endurspeglast vel í daglegri starfsemi skólans. Starfsmannavelta við leikskólann er lítil, starfsmannaánægja mikil og ljóst að lífið innan leikskólagirðingarinnar þykir heilsusamlegt og nokkuð ljúft. Hafnarfjarðarbær tilkynnti um mitt ár 2022 virka þátttöku í verkefninu Heilsueflandi vinnustaður á vegum Embættis Landlæknis og er heilsuefling í dag hluti að heildarstefnu bæjarins. Markmiðið er meðal annars bætt heilsa, aukin vellíðan og starfsánægja, aukin framleiðni, færri fjarvistir og veikindadagar, aukin hugmyndaauðgi og nýsköpun svo fátt eitt sé nefnt. Aukin hvatning til þátttöku starfsfólks innan starfsstöðva Hafnarfjarðarbæjar í Lífshlaupinu er eitt  af fjölmörgum skrefum í heilsueflandi vegferð sveitarfélagsins. Hafnarfjörður hefur verið heilsueflandi samfélag síðan 2015. Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar færði starfsfólki Smáralundar fallegan blómvönd og gjafabréf með miklum hamingjuóskum fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar.

Lífshlaupið er árlegt heilsu- og hvatningarverkefni

Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) þar sem landsmenn á öllum aldri eru hvattir til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er í frítíma, vinnu, skóla og við val á ferðamáta.  Í Lífshlaupinu 2023 tóku  16.745 landsmanna þátt í 1.495 liðum sem hreyfðu sig í 15.623.748 mínútur í 202.264 daga. Fulltrúar frá þeim vinnustöðum og skólum sem hlutskarpastir voru tóku á móti verðlaunum í veislusal Þróttar í Laugardal í síðustu viku.

Öll úrslit í Lífshlaupinu 2023 og myndir má finna á vef verkefnisins

Ábendingagátt