Sundlaugar og söfn lokuð áfram

Fréttir

Öll íþróttakennsla mun fara fram utandyra að teknu tilliti til ítrustu sóttvarna. Skólasund fellur niður.

Uppfært 22. október 2020: Ákveðið var á fundi 21. október 2020 með fulltrúum allra íþrótta- og tómstundamálasviða sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og starfsfólki almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins, að meistaraflokkar og afreks hópar sem og afreksfólk í einstaklingsgreinum geti hafið æfingar í íþróttamannvirkjum á vegum sveitarfélaganna og félaganna. Þetta er afmarkað með þeim skilyrðum sem reglugerð heilbrigðisráðherra frá 19. október segir til um vegna íþróttastarfsemi á höfuðborgarsvæðinu. Íþróttamenn sem með þessu fá leyfi til æfinga gæti því vel að fjarlægðarmörkum sem eru 2 metrar og gæti einnig að almennum persónubundnum sóttvörnum. Hvert sveitarfélag ákveður hvenær starf getur hafist þar sem undirbúa þarf opnun í samstarfi við starfsfólk mannvirkjanna og í samræmi við strangar sóttvarnarreglur ÍSÍ, sérsambandanna, reglugerðir heilbrigðisráðherra og fyrirmæli sóttvarnalæknis.

Íþróttastarf barna fædd 2005 og síðar hefst ekki að svo stöddu og verður það metið í næstu viku í samstarfi við ÍSÍ og sóttvarnayfirvöld. Nauðsynlegt er að vernda skólastarfið og forðast blöndum barna úr ólíkum hópum sem eru til staðar í skólunum til að fækka þeim sem þurfa að fara í sóttkví ef upp koma smit. Ákveðin áhætta er fólgin í því ef þessi hópar blandast í íþróttastarfi.

—————————————-

Sundlaugar, íþróttamannvirki og söfn lokuð áfram  (19.október)

Eftir ítarlega yfirferð yfir stöðu mála, í ljósi leiðbeininga sóttvarnaryfirvalda og í samráði við almannavarnir höfuðborgarsvæðisins hafa skóla- og íþróttasvið allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu tekið þá ákvörðun að öll íþróttakennsla muni fara fram utandyra að teknu tilliti til ítrustu sóttvarna og einnig mun skólasund falla niður. Öll íþróttamannvirki og sundlaugar á vegum sveitarfélaganna verða lokuð. Söfn sem rekin eru á vegum sveitarfélaganna verða einnig lokuð. Þessi ákvörðun verður endurskoðuð að viku liðinni eða í takt við álit sóttvarnalæknis.

Ástæða áframhaldandi aðgerða

Höfuðborgarsvæðið er á viðkvæmum tíma í faraldrinum. Smitum á höfuðborgarsvæðinu hefur farið fækkandi síðustu daga. Næstu daga er mikilvægt að ná enn frekari tökum á þessari bylgju svo hægt verði aftur að draga úr sóttvarnarráðstöfunum í stað þess að herða frekar á þeim. Sóttvarnaryfirvöld og almannavarnir hafa hvatt alla og höfuðborgarsvæðið sérstaklega til að halda áfram að koma í veg fyrir hópamyndun, nánd og blöndun aðila úr ólíkum áttum næstu vikur. Markmiðið er að draga úr dreifingu og vexti veirunnar og vinna gegn auknu álagi á heilbrigðiskerfið. Samfélagið á mikið undir því að það takist að halda skólastarfi gangandi. Því er lögð áhersla á að takmarka blöndun barna og unglinga milli ólíkra leik- og grunnskóla höfuðborgarsvæðisins. Að öðrum kosti getur eitt smit leitt til að óþarflega stórir hópar eða fleiri en einn skóli þurfi að fara í einangrun eða sóttkví.

Fastagestum og öðrum gestum sundlauga og safna sveitarfélagsins er þakkaður sýndur skilningur. Starfsfólk hefur nýtt tímann til að huga að safneign, breytingum og öðru innra starfi auk þess sem stór hluti hópsins er nú skráður í bakvarðahóp Hafnarfjarðarbæjar. Þannig leggur hópurinn til starfskrafta sína ef þörf skapast á starfsstöðvum sveitarfélagsins sem halda úti mikilvægri samfélagsþjónustu eins og skólastarfi og þjónustu sem þarf að haldast órofin á öllum stigum almannavarna eins og velferðarþjónustu.  

Nánari upplýsingar um söfnin og starfsemi þeirra má finna á heimasíðum þeirra 


Við erum öll almannavarnir!

Ábendingagátt